Sumarið erfiðasti tíminn

Mikil þörf er á fósturheimilum fyrir kisur og önnur dýr …
Mikil þörf er á fósturheimilum fyrir kisur og önnur dýr að sögn Dýrahjálpar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sumarið reynist alltaf erfiðasti tíminn hjá Dýrahjálp Íslands, sérstaklega í byrjun sumars, að sögn Sonju Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna.

Hún segir júnímánuð vera sérstaklega krefjandi vegna mikils fjölda beiðna um að taka við dýrum.

„Þetta er af alls konar ástæðum. Fólk er að flytja úr landi, flytja í húsnæði sem leyfir ekki dýr, eða af einhverjum ástæðum gengur dýrahaldið ekki upp,“ segir Sonja í samtali við mbl.is.

Bendir hún einnig á að sumarfrí fólks geti mögulega haft áhrif.

Vilja efla tengslin við sveitarfélög

Sonja segir Dýrahjálp vera í góðu samstarfi við opinberar stofnanir, eins og Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, en segir þó að samtökin gætu eflt tengslin við fleiri sveitarfélög.

Hún hvetur fólk til að hafa augun opin varðandi dýravelferð og bendir á að ábendingum um brot á dýravelferðarlögum eigi að beina til MAST.

Dýrahjálp taki við dýrum sem eru í neyð og eigi ekki í nein hús að venda eða eru að missa heimilin sín.

Þörf á fleiri fósturheimilum fyrir dýr

Samtökin reiða sig algjörlega á skráð fósturheimili þar sem þau hafa ekkert athvarf til að hýsa dýrin á meðan leitað er eftir framtíðarheimilum.

„Við höfum um 700 fósturheimili skráð en okkur vantar fleiri heimili fyrir bæði hunda, ketti og kanínur. Það er mikilvægt að fósturheimilin séu fjölbreytt þar sem þarfir dýranna eru ólíkar,“ segir hún og bendir áhugasömum sem uppfylla kröfur um fósturheimili fyrir dýr á heimsíðu samtakanna. 

Sonja leggur áherslu á ábyrgð þeirra sem afhenda dýr til annarra og segir mikilvægt að vanda valið þegar ný heimili eru valin.

„Ábyrgðin liggur hjá þeim sem láta dýrin frá sér. Heimilið þarf að henta dýrinu, ekki bara fólkinu,“ útskýrir hún.

Fjöldi heimilislausra dýra eftir Covid aukist

Samtökin hafa sett sér framtíðarmarkmið að koma á fót litlu neyðarathvarfi þar sem hægt verður að taka við dýrum sem fá ekki strax fósturheimili.

„Langtímadraumurinn væri að gera okkur sjálf óþörf með því að minnka fjölda heimilislausra dýra, en það er auðvitað bjartsýni,“ segir Sonja.

Eftir Covid-tímabilið hefur fjöldi heimilislausra dýra aukist mikið aftur. Hún segir það meðal annars vegna þess að margir hófu ræktun dýra í faraldrinum.

„Við þurfum aftur að byrja að leggja áherslu á fræðslu. Fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fjölgar dýrum, því það er ekki alltaf nóg af hentugum heimilum fyrir þau,“ segir hún.

Öll dýr í neyð velkomin

Sonja bætir við að samtökin þurfi alltaf fleiri sjálfboðaliða til ýmissa verka, ekki bara umönnunar dýra heldur líka verkefna eins og lagerumsjónar og viðburða.

Einnig bendir hún á að á heimasíðu samtakanna megi allir auglýsa sem vanti að finna heimili fyrir dýrin sín, ef nauðsyn krefst. Það úrræði er aðeins hugsað fyrir fólk sem þarf virkilega að finna ný heimili fyrir dýrin sín.

Öll dýr eru velkomin, jafnt hestar sem hamstrar í neyð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert