Telja ákvörðunina lengja biðlista eftir aðgerð

Heilbrigðisráðuneytið fól nýlega Sjúkratryggingum Íslands að semja um 100 aðgerðir …
Heilbrigðisráðuneytið fól nýlega Sjúkratryggingum Íslands að semja um 100 aðgerðir vegna endómetríósu á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endósamtökin lýsa yfir þungum áhyggjum af ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að niðurgreiða ekki fleiri aðgerðir vegna endómetríósu utan Landspítalans. Samtökin telja að breytingarnar muni verða til þess að bið eftir aðgerðum vegna endómetríósu muni lengjast enn frekar.

Samtökin skora á heilbrigðisráðuneytið að endurskoða ákvörðun sína auk þess sem þau kalla eftir auknu samráði í mótun á þjónustu fólks með endómetríósu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Endósamtökunum en þar kemur fram að nú séu um 100 konur á biðlista eftir aðgerð vegna endómetríósu hjá Klíníkinni og er það mat samtakanna að þessi breyting muni verða til þess að biðlistinn muni lengjast enn frekar.

Heilbrigðisráðuneytið fól nýlega Sjúkratryggingum Íslands að semja um 100 aðgerðir vegna endómetríósu á árinu. Síðastliðin tvö ár hefur verið samið um tæplega 200 aðgerðir á Klíníkinni vegna sjúkdómsins.

Aukast líkur á að fólk búi við skert lífsgæði

„Það er að sjálfsögðu mikilvægt að fólk hafi val um hvar það sækir þjónustu, en fyrst og fremst lýsa samtökin yfir áhyggjum yfir því að með þessari ákvörðun lengist biðtími eftir aðgerð en það getur haft alvarlegar afleiðingar. Með aukinni bið eftir nauðsynlegri aðgerð aukast líkur á að konur og fólk með endó lifi við skert lífsgæði, hljóti varanlegan skaða á líffærum, detti úr virkni í vinnu, námi og félagslífi og glími við ófrjósemi,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Segir þar jafnframt að Endósamtökin hafi átt fund með Ölmu Möller heilbrigðisráðherra þar sem þau lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu samninga og fóru yfir áskoranir sem fólk með endómetríósu mætir í heilbrigðiskerfinu.

„Að þessi ákvörðun sé tekin án þess að hlustað sé á raddir þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda dregur úr trausti og er til þess fallið að auka vanlíðan og útilokun þeirra sem þurfa mest á þessari aðstoð að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert