Tilkynningum um nauðgun fjölgaði á fyrstu þremur mánuðum ársins en ríkislögreglustjóri hefur birt skýrslu um fjölda kynferðisbrota.
Í henni kemur fram að alls bárust 142 tilkynningar til lögreglu á tímabilinu, sem er sami fjöldi og á sama tíma í fyrra.
Áberandi er fjölgun tilkynninga um nauðganir. Alls bárust 52 slík mál lögreglu á fyrsta ársfjórðungi 2025, samanborið við 40 á sama tímabili í fyrra – sem samsvarar tæplega 30% aukningu.
Fram kemur í skýrslunni að í nauðgunarmálum megi sjá breytingu á aldursdreifingu sakborninga frá fyrri árum. Hlutfall grunaðra á aldrinum 18-25 ára hefur dregist saman úr 29% árið 2023 í einungis 15% árið 2025. Á sama tíma hefur hlutfall grunaðra á aldrinum 26-35 ára hækkað í 36% sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur á síðustu árum.
Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 25, samanborið við 28 á sama tímabili í fyrra og fjöldi tilkynntra blygðunarsemisbrota var 13, eða sami fjöldi og í fyrra. Þá voru tilkynningar um kynferðislega áreitni og stafræn kynferðisbrot 29 talsins, sem er fækkun um 26% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára.
Fjöldi brotaþola var 125 og þar af 86% kvenkyns á tímabilinu. Meðalaldur brotaþola var 22 ár og voru 46% þeirra undir 18 ára í öllum tilkynntum kynferðisbrotamálum. Rúmlega tólf ára aldursmunur er á meðalaldri brotaþola og grunaðra.
Uppfært: Eftir að fréttin var birt sendi ríkislögreglustjóri frá sér leiðréttingu og hefur fréttin verið lagfærð samkvæmt því. Rétt er að hlutfall grunaðra í nauðgunarmálum sem eru á aldrinum 18-25 ára hefur dregist saman úr 29% í 15%, en ekki 36% í 14%, eins og kom upphaflega fram. Þá hækkaði hlutfall grunaðra á aldrinum 26-35 ára í 36% en ekki 42%.