Vann á nóttunni til að hugsa um barnið á daginn

Hildur ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Atla Ragnarssyni. Hildur segir klárt …
Hildur ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Atla Ragnarssyni. Hildur segir klárt mál að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefði mátt gera meira í leikskólamálum. Ljósmynd/Aðsend

Löng bið eftir leikskólaplássi vó þungt í ákvörðun Hildar Jónínu Rúnarsdóttur Isaksen og fjölskyldu hennar þegar þau ákváðu að yfirgefa Reykjanesbæ og flytja í Skagafjörð.

Hildur segir í samtali við mbl.is að staða leikskólamála í Reykjanesbæ sé óásættanleg og að bæjaryfirvöld geri ekki nóg til að koma til móts við foreldra.

Hildur hafði búið alla ævi í Reykjanesbæ og fjölskyldan byggt upp heimili í hverfinu sem hún ólst upp í. Hjónin voru búin að taka húsið í gegn og því var ákvörðunin um að flytja ekki auðveld. En þegar ljóst varð að yngsta dóttirin myndi ekki fá leikskólapláss fyrr en haustið 2026 – þegar hún verður 27 mánaða – urðu þau að grípa til aðgerða.

Eins og mbl.is hefur fjallað um hefja flest börn í Reykjanesbæ leikskóladvöl á aldrinum 24 til 29 mánaða. Í sambærilegum sveitarfélögum er meðalaldur barna við upphaf leikskólagöngu á bilinu 15 til 19,7 mánaða.

Barnið fær pláss 16 mánaða gamalt í Skagafirði

„Við gátum ekki bara verið á einum launum. Ég var í vaktavinnu áður, ég var að vinna á nóttunni til að redda okkur. En það gengur náttúrulega ekki að vinna á nóttunni, koma svo heim og hugsa um barnið,“ segir hún.

Fjölskyldan flutti í Skagafjörð fyrir hálfu ári og laut sú ákvörðun meðal annars að því að systir Hildar býr þar, sem veitir þeim mikilvægt bakland. Þar fær yngsta barnið leikskólapláss 16 mánaða gamalt og sveitarfélagið býður einnig foreldragreiðslur á tímabilinu frá tólf mánaða aldri þar til barn kemst inn á leikskóla.

„Frá því að hún er eins árs og þar til hún kemst inn á leikskóla er hægt að sækja um foreldragreiðslur,“ segir Hildur, en slíkar heimgreiðslur eru ekki í boði í Reykjanesbæ, heldur greiðslur til dagforeldra.

Umræðan í Reykjavík gnæfir yfir stöðuna annars staðar

Aðspurð hvort hún hafi reynt að finna dagmömmu í Reykjanesbæ segir Hildur að það hafi í raun allt verið uppbókað. Þeim var boðið eitt pláss en það var hjá erlendri fjölskyldu sem talaði ekki íslensku og Hildi fannst því ekki ganga.

Hildur segir að leikskólamálin í Reykjanesbæ hafi verið erfið í langan tíma, þótt lítið fari fyrir umræðu um þau.

„Nei, það er einhvern veginn út af því að það heyrist alltaf hæst í Reykjavík en þetta er búið að vera svona síðan ég var með elstu mína, sem er að verða 13 ára.“

Sex börn og eitt langveikt: Enginn forgangur

Fjölskyldan á sex börn, þar af eitt langveikt, og þrjár dætur sem eru þegar í leikskóla. Þau töldu sig eiga að vera í forgangi í kerfinu en fengu önnur svör frá bænum.

„Við erum með langveikt barn líka og maður ætti að vera í forgangi fyrir það, og út af því að við erum með þrjár stelpur á leikskóla fyrir. En það bara virðist ekki skipta neinu máli,“ segir Hildur.

Hún segir að þau hafi reynt að leita til bæjaryfirvalda en fengið þau svör að ekkert væri hægt að gera til að tryggja pláss fyrr.

Finnst þér bæjarstjórnin hafa mátt gera meira í leikskólamálum?

„Já, alveg klárlega. Þau hefðu getað reynt að koma til móts við fólk með því að bjóða þeim foreldragreiðslur eða eitthvað,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert