Leit stendur enn yfir að göngumanni við Esjuna sem hefur verið leitað frá því í gærkvöldi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fresta eða hætta leit að manninum.
Þetta segir Hinrik Wöhler, staðgengill upplýsingafulltrúa Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Allar tiltækar björgunarsveitir á suðvesturhorni landsins taka þátt í leitinni.
Aðspurður segir Hinrik að björgunarsveitarmenn telji sig kunna deili á manninum.
„Við erum með vissar upplýsingar um einstaklinginn sem hjálpa til við leitina,“ segir Hinrik en hann gat ekki veitt frekari upplýsingar um göngumanninn.
Spurður hvernig tilkynning um göngumanninn hafi borist segir hann að fólk hafi farið að lengja eftir honum. Tilkynningin barst björgunarsveitarmönnum í gærkvöldi en leitin hófst á tíunda tímanum í gærkvöldi.
Að sögn Hinriks hafa leitarskilyrði við Esjuna verið góð en þoka hefur farið að myndast í um 800 metra hæð á fjallinu. Þokan hefur ekki haft áhrif á leitina en leitað hefur verið með drónum og fjórhjólum auk þess sem nokkrir gönguhópar hafa tekið þátt í leitinni.