Viðbyggingarnar verða reistar

Verkmenntaskólinn á Akureyri VMA
Verkmenntaskólinn á Akureyri VMA mbl.is/Þorgeir

Reistar verða viðbyggingar við fimm verknámsskóla á næstu misserum. Framkvæmdir hófust við Fjölbrautaskólann í Breiðholti seint á síðasta ári og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist við fjóra skóla til viðbótar í vetur að loknu útboði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Þessir fjórir skólar sem um ræðir eru Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Annar áfangi opinberra framkvæmda við fullnaðarhönnun og áætlunargerð vegna viðbygginganna hefst nú í sumar.

Fjármagnið uppsafnað hjá ráðuneytinu

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að ríkisstjórnin hefði ákveðið í fjáraukalögum að hætta við fjármögnun sem búið var að tryggja til þess að ráðast í stækkun á þessum umræddu verknámsskólum.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu liggi uppsafnað fjármagn upp á 2,6 milljarða króna og að flutningur fjárheimilda í málaflokknum í fjármálaáætlun sem liggi fyrir hafi ekki áhrif hvað það varðar. 

„Ríkisstjórnin hyggst hefja framkvæmdir við fjóra verknámsskóla sem eru Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Það strandar ekki á fjármagni – en nú er komið að öðrum áfanga sem snýr að hönnun og nákvæmari áætlanagerð. Því til viðbótar klárum við viðbyggingu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Við látum verkin tala í þessu eins og öðru,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka