Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, segir því rangt haldið fram af forstjóra Símans að Sýn sé að „svipta þúsundir heimila“ aðgangi að sjónvarpsútsendingum nema þau komi í frekari viðskipti við Sýn.
Greint var frá því í morgun að í lok sumars verður ekki lengur hægt að horfa á sjónvarpsefni félagsins öðruvísi en í gegnum myndlykla eða smáforrit Sýnar, en þar undir eru sjónvarpsfréttir og enski boltinn.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að þetta útspil standist ekki lög og þetta færi gegn eðlilegri þróun. Herdís hafnar þessu alfarið:
„Það er líka alrangt að þetta sé þvert á eðlilega þróun: Þvert á móti er þetta í samræmi við hvernig alþjóðlegar streymisveitur á borð við Netflix, Hulu, Disney o.fl. dreifa sínu efni,“ segir Herdís í samtali við mbl.is spurð út í gagnrýni forstjóra Símans.
Herdís segir að þessi breyting verði til hagsbóta fyrir neytendur þar sem þeir geta sjálfir valið hvar þeir eru í fjarskiptum. Neytendur geta áfram nálgast útsendingar án nokkurra vandkvæða og án þess að skipta um undirliggjandi fjarskiptaþjónustu.
„Í þeirri breytingu sem við hjá Sýn höfum tilkynnt felst að útsendingar efnis færast úr því að vera bundnar við útsendingar í lofti og gegnum sjónvarpskerfi á vegum fjarskiptafélaganna yfir á hið opinbera internet.
Rekstur dreifikerfa er dýr og hugsanlega óhagkvæmur fyrir minni aðila sem þurfa að greiða fyrir þátttöku í kerfinu. Það kerfi sem hefur verið notað er ekki aðeins gamaldags heldur einnig ósanngjarnt þar sem það felur í sér óhagræði fyrir minni fjölmiðlaveitur,“ segir Herdís og bendir á að almennt sé dreifing sjónvarpsefnis að færast yfir á veraldarvefinn með tilkomu svokallaðra OTT lausna.
OTT-lausnir vísa til sjónvarps- og myndbandsefnis sem er streymt í gegnum veraldarvefinn án þess að hefðbundnir dreifingaraðilar komi að. Netflix og Disney+ eru dæmi um OTT-lausnir.