Halldór Björnsson, fagstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, segir að ef önnur hitabylgja ætti sér stað seinna í sumar, samskonar eða álíka þeirri sem átti sér stað á Íslandi í maí, myndi hitastig líklega fara yfir 30 gráður á sumum stöðum.
Halldór ræddi hitabylgjuna sem varð á Íslandi og Grænlandi í maí á vefkynningu á vegum World Weather Attribution á rannsókn sem hópur vísindamanna hjá Grantham stofnuninni í London gerði á hitabylgjunni.
Í máli Halldórs kom enn fremur fram að augljóslega væri mjög takmörkuð spá- og forspárgeta til staðar til að spá fyrir um hvað geti gerst seinna í sumar.
Vísaði hann þó í að svæðisbundnar loftslagsmiðstöðvar hafi reynt að spá fyrir um veðrið í sumar með takmörkuðum árangri.
Þær spár geri ráð fyrir aðeins hlýrra loftslagi á Íslandi í sumar en meðaltalið gerir ráð fyrir. Halldór tekur fram að þá séu hitabylgjur ekki teknar inn í myndina.
„Mestu hitabylgjurnar verða hér í júlí og ágúst en hiti á Íslandi nær yfirleitt hámarki í kringum 20. júlí og nokkrum vikum síðar við norðurströndina.
Hitabylgjur á þessum árstíma eru miklu ákafari, og ef sams konar eða álíka hitabylgja ætti sér stað á þeim tíma myndum við líklega sjá hitastig fara yfir 30 á sumum stöðum.“
Fredi Otto, loftslagsfræðingur við Grantham-stofnunina um loftslagsbreytingar og umhverfismál við Imperial háskóla í London, tekur undir með Halldóri. Hún segir að ef annað háþrýstikerfi komi yfir Ísland og Grænland með hlýtt loft úr suðri gæti vel verið að afleiðingin verði önnur hitabylgja.
Annað hvort verði sú sams konar eða álíka og í maí eða jafnvel heitari, því loftslagsbreytingar hafa áhrif á hitabylgjur allt árið.
„Ef við sjáum annan atburð í júlí, þá væri hitastigið enn hærra.“