Hnattræn hlýnun jók líkur og hlýindi hitabylgju

Einróma veðurblíða var um land allt dagana 13.-22. maí.
Einróma veðurblíða var um land allt dagana 13.-22. maí. Kort/Veðurstofa Íslands

Hitabylgjan sem gekk yfir Ísland í maí var að mörgu leyti óvenjuleg. Hún átti sér stað snemma árs, var mjög útbreidd og stóð lengi yfir eða samfellt í tíu daga.

Skýrsla alþjóðlegs hóps vísindamanna, World Weather Attribution, hjá Grantham-stofnuninni í London, sem vann greiningu á hitabylgjunni, hefur verið kynnt.

Loftslagsbreytingar örlagavaldur

Ef ekki hefði verið fyrir hnattræna hlýnun af manna völdum hefði hitastig verið þremur gráðum lægra að jafnaði en það reyndist vera. Þá gerðu loftslagsbreytingar hitabylgjuna 40% líklegri samkvæmt greiningunni.

Nýliðinn maímánuður var sá hlýjasti á landinu frá upphafi mælinga. Hiti mældist yfir 20 gráður á einhverri veðurstöð á landinu í tíu daga í röð, dagana 13.-22. maí.

Sett voru ný met á 94% veðurstöðva og nýtt hitamet á Íslandi var slegið í þrígang. Hæsta hitastigið mældist 26,6° á Celsius við Egilsstaðaflugvöll 15. maí. Á sumum svæðum náði hitastig meira en tíu stigum yfir árstímameðaltali.

Vanmetin áhrif

Niðurstöður skýrslunnar byggja á greiningu á veðurathugunum frá bæði Íslandi og Grænlandi auk loftslagslíkana. Samkvæmt þeim er talið líklegt að áhrif hnattrænnar hlýnunar á hitabylgjuna séu vanmetin enda þekkt að loftslagslíkön geti ekki fangað umfang hnattrænnar hlýnunar.

Jörðin hefur hlýnað um 1,3° á Celsius síðan fyrir iðnbyltingu og segja skýrsluhöfundar að slíkrar hitabylgju sé við þá hlýnun að vænta á um hundrað ára fresti. Þannig sé um að ræða viðburð sem hefði ekki getað átt sér stað þar til nýlega, eins og Friederike Otto, loftslagsvísindamaður frá Imperial-háskóla á Englandi, orðaði það í kynningunni.

Afstaða veðurkerfa orsökin

Rannsóknarhópurinn telur að ef hnattræn hlýnun tvöfaldist og nemi 2,6° á Celsius síðan fyrir iðnbyltingu verði hitabylgja af þeirri stærðargráðu sem við upplifðum í maí tveimur gráðum heitari og að minnsta kosti tvöfalt líklegri.

Eins og komið hefur fram var orsök hitabylgjunnar afstaða veðurkerfa í kringum landið. Fyrirstöðuhæð við Færeyjar veitti óvenjulega hlýju lofti suður frá Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu yfir Ísland og Grænland.

Vísindamennirnir telja að frekari hlýnun jarðar sé ekki líkleg til að stuðla sérstaklega að sambærilegum veðuraðstæðum og þá. Hins vegar verði hlýrra ef slíkar veðuraðstæður skapast vegna hnattrænnar hlýnunar.

mbl.is/Eyþór

Sautján sinnum hraðari bráðnun Grænlandsjökuls

Hitafrávik á Grænlandi var jafnvel meira en hér á landi. Þannig mældist hitinn mestur í Ittoqqortoormiit, meira en 13 gráðum yfir meðalhita. Hitinn mældist mestur 14,3° á Celsius en er alla jafna um 0,8 gráður.

Hópurinn telur að bráðnun Grænlandsjökuls hafi orðið sautján sinnum hraðari en hún er að meðaltali á ári á meðan hitabylgjan stóð yfir.

Grænlendingar hafa lengi reitt sig á hafís til þess að komast á milli staða og til að komast til veiða. Bráðnun hafíss vegna hnattrænnar hlýnunar ógnar því lífsháttum Grænlendinga.

Hópurinn gerir fyrirvara um að vísindagrein hans um hitabylgjuna í maí hafi ekki verið ritrýnd en tekur þó skýrt fram að rannsóknaraðferðir sem beitt hafi verið séu margreyndar til að leggja mat á áhrif hnattrænnar hlýnunar á veðuratburði.

mbl.is/Hákon
mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert