Sveitarfélög eru í eðli sínu sterkari í dag en þau voru fyrir 80 árum þegar Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað. Hlutverk sveitarfélaganna hefur breyst mikið síðan sambandið var stofnað og verkefnin eru orðin mun fleiri og stærri. Í dag eru sveitarfélögin 62 talsins en árið 1945 þegar sambandið var stofnað voru þau 218 talsins.
Þetta segir Jón Björn Hákonarson, formaður sambandsins, en félagið fagnaði í dag tímamótunum.
„Hlutverk sveitarfélaganna er gjörólíkt því sem var árið 1945. Á þessum tíma voru sveitarfélögin með mjög afmarkað hlutverk. Síðan þá hafa sveitarfélögin tekið við stærri verkefnum. Tekið var við grunnskólunum 1996 en fram að því rak ríkið grunnskólana. Við tókum við málefnum fatlaðra sem var mikið og stórt verkefni. Samfélagið breytist og kröfurnar með. Við þurfum samtök eins og þessi til að sinna hagsmunagæslu, aðallega til að eiga í samtali við ríkið og vinna saman að sameiginlegum markmiðum,“ segir Jón við mbl.is.
Jón segir félagsþjónustu allt aðra í dag heldur en fyrir nokkrum áratugum, en sveitarfélögin veita um 20% af þjónustu hins opinbera við íbúa sína. Jón segir skýrt að sveitarfélög á Norðurlöndunum sinni mun hærra hlutfalli nærþjónustu og segir Jón að Ísland þurfi að horfa til þess í framtíðinni. Hann segir eðlilegt að sveitarfélögin veiti meiri nærþjónustu en skatttekjur þurfi samt sem áður að standa undir því. Jón vonar að meiri samstaða náist um þau mál á næstunni.
Umræða hefur verið um þá þjónustu og umgjörð sem mismunandi sveitarfélög veita og meðal annars að frekar sé leitað þjónustu hjá stærsta sveitarfélaginu í krafti stærðar þess.
Aðspurður hvort sveitarfélög landsins beini íbúum sínum til Reykjavíkur til að hljóta þjónustu segir Jón að slíkt sé ekki algengt, en eðlilegt sé að borgin togi til sín fólk í ákveðnum tilvikum þar sem þjónustan geti verið betri en annars staðar.
„Þegar málaflokkar fatlaðra komu yfir til sveitarfélaganna urðu miklar breytingar. Okkur hefur greint á um það við ríkið að okkur skorti fjármagn til að sinna þessari þjónustu. Það getur því valdið því að sveitarfélög beini fólki til höfuðborgarinnar vegna skorts á fjármagni til að veita þessa þjónustu,“ segir Jón.
Jón segir tekjustofnana ekki oft standa undir þjónustunni sem ætlað er að sveitarfélögin veiti og nefnir hann þá dæmi um hjúkrunarheimili. „Sum sveitarfélög vilja reka hjúkrunarheimili en önnur hafa fært þá þjónustu til ríkisins. Tekjustofnarnir hafa þá ekki staðið undir þjónustunni sem átti að veita. Þetta finnst mér vont að sjá en á því eru auðvitað ýmsar skýringar.“
„Ég vonast til þess að við náum að eiga í samtali á næstu árum við ríkið og ræða hvaða þjónusta ætti betur heima hjá sveitarfélögunum og hvaða fjármagn ætti þá að fylgja þeim breytingum,“ segir Jón.
Kjarasamningar eru annað stórt atriði sem Samband íslenskra sveitarfélaga koma náið að og skipta þau miklu máli, en eru á sama tíma umdeilt mál þegar samningaviðræður standa yfir.
„Þetta hefur auðvitað verið mikið í umræðunni. Nú erum við með kjarasamninga á markaði til lengri tíma og kjarasamningar við kennara fólu í sér virðismat sem ég held að hafi verið mjög gott skref. Það verður til þess að það verður meiri fyrirsjáanleiki í launamálum,“ segir Jón.
„Sveitarfélögin þurfa að skilgreina sína þjónustu og hvernig þau ætla að reka slíka þjónustu. Við verðum að finna lausnir á því hvernig sé hægt að reka hina ýmsu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Kjarasamningshækkanir leiða til þess að útsvar og skattar hækka á móti og eru því lengri kjarasamningar góður kostur fyrir alla, bæði verkalýðshreyfinguna og launagreiðendur. Þá er hægt að hafa lengri og betri yfirsýn yfir tekjuinnheimtu sveitarfélaganna,“ bætir Jón við.
Samband íslenskra sveitarfélaga fagnaði 80 ára afmæli sambandsins í dag með afmælisráðstefnu á Iceland Parliament Hotel. Fjölbreytt erindi voru á ráðstefnunni varðandi sögu og þróun sveitarfélaga og áskoranir framtíðarinnar.