Veittust að eldri manni: Barnavernd kölluð til

Sjö gistu fangageymslur lögreglu vegna rannsóknar mála en 75 mál …
Sjö gistu fangageymslur lögreglu vegna rannsóknar mála en 75 mál voru skráð í kerfi lögreglu á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnavernd var kölluð til þegar hópur drengja veittist að eldri manni í gærkvöld. Einn drengjanna var færður á lögreglustöð sem sinnir málum í Kópavogi og Breiðholti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 

Sjö gistu fangageymslur lögreglu vegna rannsóknar mála en 75 mál voru skráð í kerfi lögreglu á tímabilinu.

Tveir í haldi vegna rannsóknar á líkamsárás

Tveir eru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar á líkamsárás. Málið kom upp á svæði lögreglu sem sinnir málum í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ. Á sama svæði var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun og skýrsla tekin á staðnum.

Einnig var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun í þremur aðskildum málum á því svæði sem sinnir miðborg, vestur- og austurbæ sem og Seltjarnarnesi.

Á sama svæði var maður vistaður í fangageymslu eftir ítrekuð afskipti. Sá var ölvaður og til ama eftir því sem segir í tilkynningu.

Maður var þá vistaður í fangageymslu eftir að hafa brotið rúðu í lögreglubifreið. Afskipti voru höfð af honum á svæði lögreglu sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti þar sem hann ætlaði ekki að greiða fyrir leigubíl en sá reikningur var upp á nokkra tugi þúsunda.

Þó nokkur afskipti voru þá höfð af ökumönnum sem voru annað hvort réttindalausir og/eða ölvaðir og undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert