Sigurður Fannar Þórsson játar því að hafa banað tíu ára dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, við Krýsuvík í september í fyrra.
Ríkisútvarpið greinir frá en aðalmeðferð á hendur honum fór fram í dag.
Sigurður bar fyrir sig minnisleysi að einhverju leyti en samþykkti á sama tíma bótakröfu móður stelpunnar. Bótakrafan hljóðar upp á fimm milljónir króna í miskabætur og eina og hálfa milljón í útfararkostnað.
Þinghaldinu var lokað vegna náinna fjölskyldutengsla. Sigurður huldi andlit sitt er hann gekk fram hjá fjölmiðlum í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Sigurður er ákærður fyrir að hafa veist að og banað dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, þann 15. september við Krýsuvíkurveg. Hann hafði sjálfur samband við lögregluna og vísaði á líkið.
Hann er einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot en hann hafði í fórum sínum mikið magn fíkniefna, þar á meðal kókaín og MDMA. Í ákæru málsins segir að lögreglan hafi fundið efnin við leit í vörugámi við Kapelluhraun í Hafnarfirði sama dag og lík Kolfinnu fannst.