Átján ára dómur í Nýbýlavegsmáli staðfestur

Konan svipti sex ára son sinn lífi á heimili fjölskyldunnar …
Konan svipti sex ára son sinn lífi á heimili fjölskyldunnar á Nýbýlavegi í Kópavogi í lok janúar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest 18 ára dóm yfir móður sem varð sex ára syni sínum að bana á heimili fjölskyldunnar að Nýbýlavegi í janúar í fyrra. Hún var einnig fundin sek um tilraun til manndráps gagnvart eldri syni sínum sem komst þó undan.

Kon­an, sem er um fimm­tugt, var ann­ars veg­ar ákærð fyr­ir mann­dráp og stór­fellt brot í nánu sam­bandi, og hins veg­ar til­raun til mann­dráps og stór­fellt brot í nánu sam­bandi. Hluti af vörn máls­ins snéri að því hvort kon­an væri ekki sak­hæf vegna and­legra kvilla.

Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um að konan hefði verið fær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu og væri því sakhæf. Er í dóminum meðal annars vísað til matsgerða þriggja geðlækna sem allir töldu konuna hafa verið færa um að stjórna gerðum sínum þegar hún myrti son sinn.

Þrír geðlæknar sögðu konuna sakhæfa

Fyrir Landsrétti bar einn geðlæknir um að konan hefði þjáðst af ranghugmyndum, meðal annars stöðugum hugsunum að hún væri með krabbamein. Hins vegar væru það ekki stýrandi ranghugmyndir eða ranghugmyndir sem gerðu það að verkum að hún gæti ekki haft stjórn á því sem hún gerði. 

Annar geðlæknir bar til um að konan hefði átt við þunglyndi og kvíða að stríða áður en hún kom til Íslands og þráhyggjukenndum hugsunum eftir komuna hingað. Sterkar vísbendingar væru um að hún væri haldin áfallastreituröskun, enda hefði hún verið á flótta í 20 ár og dvalið í flóttamannabúðum á ýmsum stöðum.

Þriðji geðlæknirinn sagði að þegar kæmi að sakhæfi konunnar þyrfti að meta hvort að þunglyndi sem hún væri haldin gerði það að verkum að hún hefði ekki getað séð út úr aðstæðum sínum og verið algjörlega dómgreindarlaus á verknaðarstundu. Það væri ekki hans mat. Meðal annars hefðu upptökur lögreglu af vettvangi verið skoðaðar og þar hafi honum verið ljóst að konan hafi ekki verið í geðrofi skömmu eftir verknaðinn.

Taldi konuna þola fangelsisvist

Taldi þriðji geðlæknirinn jafnframt að hann mæti það svo að konan þyldi fangelsisvist við þær aðstæður sem hún byggi við í dag. Hún skyldi orsök og afleiðingu og af hverju henni væri refsað, en að hún væri viðkvæm og þyrfti stuðning.

Landsréttur staðfesti því sem fyrr segir forsendur dóms héraðsdóms um 18 ára fangelsi. Þá staðfesti Landsréttur einnig að konan skyldi greiða eldri syninum fimm milljónir í bætur og barnsföður sínum þrjár milljónir. Jafnframt var henni gert að greiða rúmlega þrjár milljónir í áfrýjunarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert