Þetta er hús með mikla sögu, danski bakarinn Jörgen E. Jensen byggði það árið 1876 og var með bakarí í kjallaranum, sem kallað var Norska bakaríið af því að húsið var flutt inn í einingum frá Noregi. Fyrsta sveinsprófið á Íslandi var tekið í þessu bakaríi og það eru tveir skorsteinar á húsinu, annar fyrir bakaríið og hinn fyrir fjölskyldu bakarans sem bjó uppi á hinum tveimur hæðunum. Svarta húsið hér við hliðina var hesthús bakarans,“ segir Steinunn Tómasdóttir þar sem hún tekur á móti blaðamanni á litla fallega gistiheimilinu sem hún á og rekur í Fischersundi í höfuðborginni, Reykjavík Treasure B&b.
„Fjögur elstu hús Reykjavíkur eru hér í Grjótaþorpinu og þetta hús er eitt af þeim, það verður 150 ára á næsta ári. Gestir mínir hafa sumir orð á því hversu góður andi sé hér og sjálf sef ég aldrei betur en þegar ég gisti í þessu gamla húsi. Þar fyrir utan er einstaklega friðsælt í Grjótaþorpinu og gestir mínir segjast margir sofa undur vel hér.“
Steinunn segir að Silli og Valdi hafi eignast húsið 1942 en árið 1960 kom upp eldur í því og þeir notuðu það sem geymslu eftir það.
„Þráinn Bertelsson og Sólveig Eggertsdóttir kona hans keyptu húsið árið 1990 en þá var það að hruni komið. Þau gerðu það upp í sinni upprunalegu mynd og fengu Magnús Skúlason arkitekt til liðs við sig, en hann sérhæfir sig í gömlum húsum. Hér eru upprunalegir þverbitar í loftinu og hurðir herbergjanna. Einnig eru allar litapallettur upprunalegar. Þau Þráinn og Sólveig bjuggu hér í rúmlega tuttugu ár og Sólveig, sem var myndlistarkona, var með vinnustofu á neðstu hæðinni. Árið 2012 keyptu mæðgurnar Sigfríður og Sunna húsið og breyttu því í gistiheimili. Þær settu sérbaðherbergi inn á öll herbergin, minnkuðu eldhúsið og bættu þannig við einu herbergi á aðalhæð og bjuggu til þrjú herbergi niðri. Ég keypti svo af þeim húsið árið 2021 og hef rekið það sem gistheimili síðan og notið hverrar stundar,“ segir Steinunn sem hefur mikinn áhuga á bakstri og matargerð og fær mikið út úr því að baka á hverjum morgni dýrlega gott brauð fyrir gesti sína, sem þeir hrósa flestir í hástert í umsögnum sínum.
Steinunn er fædd og uppalin á Ólafsvík í stórum systkinahópi og segir að mamma sín hafi kennt sér að baka brauð þegar hún var 10 ára.
„Það er mjög eftirminnilegt, því mamma var að hvíla sig yfir miðdegissögunni og ég kallaði því til hennar úr eldhúsinu til að spyrja hvað ég ætti að gera næst í uppskriftarferlinu. Við erum ellefu systkinin svo það var oft líf og fjör á heimilinu,“ segir Steinunn sem er viðskiptafræðingur, en hún sótti sér þá menntun til Álaborgar í Danmörku, þar sem hún bjó í fimm ár með fyrrverandi manni sínum.
„Þegar við fluttum heim fékk hann boð um vinnu á Suðurnesjum og þar bjuggum við í fimmtán ár með börnin okkar og ég vann lengst af sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Við lok búskapar okkar þar skráði ég mig til gamans í ferðamálafræði í MK, enda er ég með mikinn áhuga á ferðalögum innanlands sem utan. Þegar við hjónin skildum fyrir tíu árum vorum við flutt í bæinn en ég keyrði til Keflavíkur í vinnuna. Mér fannst það þreytandi svo ég ákvað að breyta til og fékk starf sem hótelstýra um sumar á Edduhóteli á Laugum í Sælingsdal. Sonur minn og tengdadóttir komu með mér og ég réð reynslumikla vinkonu mína sem móttökustjóra. Þetta var rosalega skemmtilegt sumar og góð reynsla. Næst tók ég að mér skrifstofustjórastarf á Hilton hóteli í Reykjavík, en mér leiddist á skrifstofunni svo ég fór í móttökuna og prófaði ýmis önnur störf á hótelinu. Í mér blundaði alltaf draumur að eiga og reka mitt eigið gistiheimili, ég sá fyrir mér rómantíska mynd úti í sveit með blaktandi þvott á snúru.“
Þegar börn Steinunnar voru bæði flutt að heiman tók hún sér ársleyfi frá vinnu og ákvað að láta ferðadrauminn rætast.
„Ég leigði íbúðina mína út og byrjaði á að vera í tvo mánuði á Ítalíu þar sem ég lærði ítölsku, fór í fjallgöngur og sótti námskeið í brauðbakstri og matargerð. Næst fór ég til Kenía í Afríku í hjálparstarf í sex vikur, kenndi þar í leikskóla og ætlaði því næst til Austurríkis að skíða í nokkrar vikur, enda er ég mikil skíðaáhugakona. Málin þróuðust þannig að þrír Íslendingar réðu mig sem hótelstýru í einn vetur á litlu skíðahóteli í Austurríki sem þeir keyptu af íslenskri konu á þessum tíma. Skömmu síðar skall covid á, svo ég gat ekki klárað ferðalagið mitt, sem ég hafði ætlað að enda í Asíu. Ég þurfti að fara heim til Íslands í mars, atvinnulaus og íbúðarlaus, en ég var búin að kynnast íslenskum manni áður en ég lagði upp í flakkið og gat búið hjá honum. Ég fór að kenna dönsku í Snælandsskóla og leysti af tvö sumur hér og þar á hótelum, meðal annars við Mývatn. Þegar ég svo sá að þetta sjarmerandi gistihús hér í Grjótaþorpinu var til sölu langaði mig að slá til og kaupa það, en það var of dýrt. Seinna þegar ég sá að það var enn á sölu, þá hvatti kærastinn minn mig til að senda inn tilboð. Við tóku samningaviðræður sem enduðu með að ég keypti húsið. Þetta hefur verið ein af mínum allra bestu ákvörðunum, því ég elska vinnuna mína, að veita gestum mínum persónulega þjónustu, baka ítalskt brauð handa þeim á morgnana og spjalla við þá. Morgnarnir eru skemmtilegasti tími dagsins og til mín kemur áhugavert fólk af öllum þjóðernum, fólk sem vill vera í samskiptum við annað fólk og hefur gaman af öðru fólki. Hér í litla húsinu er mikil nánd og allir sitja saman við eitt langborð í eldhúsinu hjá mér við morgunverðinn. Ég spjalla, leiðbeini fólki og segi því sögur. Fólk er virkilega ánægt sem sést í umsögnum sem ég fæ á bókunarsíðum, þar er ég með einkunnina 9,4. Ég get ekki verið annað en sátt við það,“ segir Steinunn sem gengur í öll störf, en hún er með tvær konur í vinnu á sumrin og eina yfir vetrartímann, til að þrífa og leysa hana af þegar hún þarf að útrétta, sjá um bókhaldið og reksturinn. „Ég bý svo vel að hafa mikið af góðu fólki í kringum mig sem hjálpar mér og hleypur í skarðið fyrir mig þegar ég vil fara í frí.“
Steinunn er með leyfi fyrir 12 gesti í fallega gamla húsinu og allt uppselt í sumar og líka um næstu áramót. Veturinn hefur einnig verið meira og minna fullbókaður.
„Margir gista hjá mér í upphafi Íslandsferðar sinnar eða við lok hennar, en sumir dvelja lengur og fara í dagsferðir með rútum. Margir gestanna segja við lok ferðalags um landið að ég sé fyrsti Íslendingurinn sem þau hitti í Íslandsferðinni. Með því að vera íslensk og bjóða upp á spjall og nærveru og veita persónulega þjónustu, þá er ég auðvitað að selja sjálfa mig að vissu leyti, því allt er þetta stór hluti af því sem gistihúsið mitt stendur fyrir, verðmætið og aðdráttaraflið. Gestir gefa mér og húsinu umsagnir sem væntanlegir gestir lesa. Okkur verður vel til vina í nándinni hér í húsinu og ég á ótal heimboð um allan heim frá gestum mínum,“ segir Steinunn og bætir við að hópar séu velkomnir, íslenskir eða erlendir, og geti þá leigt allt húsið.
„Stundum býð ég vinkonum hingað til mín að gista og ég held kannski pastanámskeið eða kenni þeim að baka ítalskt brauð. Ég hef líka haldið jól hér með fjölskyldunni minni,“ segir Steinunn sem er sannkölluð aðalhúsfrú hússins.
„Fyrirtækið mitt heitir Húsfrúin, en þegar ég vann á hótelinu í Austurríki fyrir Íslendingana þrjá, þá sögðu þeir í viðtali að þeir væru búnir að ráða hausfrau, eða húsfrú, eins og sagt er í Austurríki um yfirmanneskju húss. Kærastinn minn fór þá að kalla mig húsfrúna og það festist við mig, svo það lá beint við að láta fyrirtækið mitt heita þessu nafni.“ Instagram: reykjaviktreasure
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.