Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir að fyrirhuguð áform Play um að hætta Bandaríkjaflugi komi ekki til með að hafa veruleg áhrif á komur ferðamanna frá Bandaríkjunum til Íslands. Önnur flugfélög muni taka við keflinu.
„Við höfum ekki farið í djúpar greiningar á þessu, en okkur sýnist þetta ekki hafa mikil áhrif á fjölda ferðamanna til Íslands. Hugsanlega aðeins, en við gerum ráð fyrir því að eftirspurnin muni fara yfir á önnur félög eins og Icelandair. Nýtingin hjá þeim hefur verið um 80% í vélunum þeirra, þannig að eitthvað rými er til að taka á móti fleiri farþegum,“ segir Arnar.
„Við höfum því ekki miklar áhyggjur af þessu,“ bætir Arnar við.
Bandaríkjamarkaður skiptir ferðaþjónustuna miklu máli. Þannig voru t.a.m. um 25% ferðamanna sem komu til Íslands með Bandaríkjaflugi í maí.