Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, vandar „ruglukollum“ sem tekið hafa yfir stjórn Sósíalistaflokksins ekki kveðjurnar á Facebook.
Vísar hann til fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem Gunnar segir Karl Héðin Kristjánsson ýja að því að eitthvað sé undarlegt við fjármál flokksins og ákvarðanir um ráðstöfun styrkja.
„Ljótu ruglukollarnir sem hafa tekið yfir Sósíalistaflokkinn og virðast stefna að því að eyðileggja þar allt sem hefur verið byggt upp,“ segir Gunnar Smári í færslu á Facebook.
Gunnar svarar ásökunum Karls frekar og segir:
„Á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins 1. ágúst 2021 var samþykkt tilboð til kjósenda sem kallað var Burt með elítustjórnmál þar sem kom fram að styrkir til Sósíalistaflokksins yrðu ekki notaðir til að byggja upp flokkinn heldur Samstöðina og hreyfingar hinnar fátæku. Þá var í þessum stjórnum fólk sem tilheyrir yfirtökuhópnum sem náði völdum á aðalfundi Sósíalistaflokksins og situr nú í framkvæmdastjórn flokksins, svo sem Sæþór Benjamín Randalsson, Hallfríður Þórarinsdóttir og Sigrún E. Unnsteinsdóttir. Nú kannast þetta fólk ekki við neitt, vegna þess að það hentar ekki rógsherferð þeirra gegn öllum þeim sem hafa byggt upp þennan flokk en er ekki í yfirtökuklíkunni,“ segir Gunnar Smári.
Segir hann tilboðið hafa verið samþykkt á félagsfundi flokksins í Tjarnarbíói 19. september árið 2021 auk þess sem þessi ráðahagur var samþykktur á félags- og aðalfundum. Þá hafi ársreikningar verið samþykktir af félagsfólki.
Það hafi meðal annars verið gert síðast þann 24. maí síðastliðinn:
„Með atkvæðum yfirtökuhópsins sjálfs. Um þessa ákvörðun flokksins hefur margsinnis verið rætt opinberlega, hún er vel þekkt og öllum kunn sem vilja vita,“ segir Gunnar Smári.
Segir hann að Sósíalistaflokkurinn hafi haft flipa á vef sínum árum saman þar sem útdeiling fjármagns er útskýrð.
„Það má benda á að Sósíalistaflokkurinn hefur haft flipa á vef sínum árum saman þar sem Vorstjarnan er kynnt og þar sem segir: Vorstjarnan er fjármögnuð með framlögum og gjöfum einstaklinga og félaga, t.d. styrktarframlagi Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokks Íslands og helmingnum af styrk ríkissjóðs til flokksins,“ segir Gunnar Smári.
Segir hann ákvarðanir flokksins um ráðstöfun fjár enn í fullu gildi. Raunar hafi verið um loforð að ræða til kjósenda flokksins um að nýta féð ekki í að byggja upp innra starf flokksins heldur að efla hagsmunabaráttu fátækra hópa og byggja upp fjölmiðlun. Gunnar hefur farið fyrir sjónvarpsstöðinni Samstöðinni þar sem pólitísk málefni eru í brennidepli.
„Umfjöllun um fjármál flokksins ætti að snúast um hvort markmið yfirtökuhópsins sé að flokkurinn gangi á bak orða sinna og eyði styrknum í að greiða fólki í yfirtökuhópnum laun, svo þau séu á fullum launum við að eyðileggja þennan flokk. Þetta er meiriháttar breyting sem yfirtökuhópurinn hlýtur að leggja fyrir næsta aðalfund svo almennir félagar geti greitt um þetta atkvæði. Þangað til þessum ákvörðunum og loforðum hefur verið breytt eru þau í fullu gildi,“ segir Gunnar Smári.