Herdís Dröfn Fjelsted, forstjóri Sýnar, segir helstu ástæðu breytinga á starfsemi Sýnar vera að einfalda skilaboð til neytenda. Áfram verður línuleg dagskrá og fréttastofan mun halda áfram útsendingum sínum en nú undir nýju nafni.
Hins vegar verða sölupakkar uppfærðir þannig að þeir verða þrír og munu heita Góði pakkinn, Betri pakkinn og Besti pakkinn. Fyrir áhugamenn um enska boltann þá verður hann í Besta pakkanum.
„Það er í raun lítið annað að breytast en nöfnin. Við erum að gefa viðskiptavinum meiri skýrleika. Áður gat fólk farið inn á Vodafone og keypt fjölda áskrifta á borð við Stöð 2, Viaplay og eitthvað sem var Vodafone sjónvarp. Svo gastu farið inn á Stöð 2 til að kaupa áskriftir. Nú erum við hins vegar að gefa viðskiptavinum þau skilaboð að allt er undir hatti Sýnar,“ segir Herdís.
Margir hafa haft orð á því að eftirsjá verði af nafni Stöðvar 2, sem er rótgróið vörumerki en stöðin var stofnuð árið 1986.
„Svarið við því er það að við erum meira en sjónvarp. Við erum fjarskipta- og fjölmiðlahús. Það gengur ekki að heita Stöð 2 þegar kemur að fjarskiptum. Svo höfum við komist að því í greiningarvinnu að vörumerkjatryggð við Stöð 2 er ekki eins sterk og menn halda. Hins vegar eru tilfinningaleg tengsl mjög sterk,“ segir Herdís.