Ók á yfir 200 kílómetra hraða þegar slysið varð

Lögreglan að störfum á vettvangi banaslyssins sem varð þann 24. …
Lögreglan að störfum á vettvangi banaslyssins sem varð þann 24. apríl á síðasta ári. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ofsaakstur ökumanns leiddi til banaslyss sem varð á Eyjafjarðarbraut eystri skammt norðan við Laugaland í Eyjafirði í apríl á síðasta ári. Fjórum sekúndum fyrir slysið var bílnum ekið á 201 km/klst samkvæmt gögnum úr árekstrareftirlitskerfi bílsins, en hámarkshraði á slysstað er 90 km/klst. 

Höggið var slíkt þegar bíllinn skall á grjóti utan vegar að hann tókst á loft og splundraðist. Brakið dreifðist um stórt svæði og vélin rifnaði úr bílnum og lenti 54 metrum frá árekstrarstaðnum.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. 

Ökumaðurinn, 29 ára karlmaður, og 23 ára kona sem var farþegi í bílnum, létust í slysinu. 

Bílnum var ekið á 201 km/klst þegar slysið varð.
Bílnum var ekið á 201 km/klst þegar slysið varð. Skjáskot/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Tókst á loft og splundraðist

Slysið varð með þeim hætti að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í aflíðandi beygju skammt norðaustan við Syðri Tjarnir og fór bíllinn við það út af veginum austan megin.

Meðfram veginum var skurður en afleggjari var yfir skurðinn og var ræsi undir afleggjaranum. Bifreiðin snerist og lenti með vinstra framhornið á stórgrýti sem var í afleggjaranum ofan við ræsið.

Við höggið sundraðist bíllinn, tókst á loft og lenti um 36 metra norðnorðaustan afleggjarans og rann síðan um 15 metra þar sem hún stöðvaðist. Brak úr bílnum dreifðist um stórt svæði en vélin rifnaði úr við áreksturinn og stöðvaðist hún um 54 metrum norðvestur frá árekstrarstaðnum.

Ofsaakstur meginorsök slyssins

Fram kemur í skýrslunni að ökumaður og farþegi hafi verið í beltum en þau létust bæði á slysstað af völdum fjöláverka. Niðurstaða úr áfengis- og lyfjarannsókn ökumanns var neikvæð.

Akstursskilyrði voru góð þegar slysið varð, vegurinn þurr, gott veður, bjart og sólskin og hiti 14 gráður.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar var ofsaakstur meginorsök slyssins. Tekið er fram að of hraður akstur hafi verið ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert