Skoða ekki útlönd þrátt fyrir úrræðaleysi

Ekki stendur til að skoða þann möguleika að senda börn …
Ekki stendur til að skoða þann möguleika að senda börn í meðferð í útlöndum. Ljósmynd/Colourbox

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur ekki skoðað þann möguleika að senda börn til útlanda í fíknimeðferð þrátt fyrir skort á meðferðarúrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda hér á landi.

Ekki stendur heldur til að skoða þann kost þar sem áhersla stjórnvalda er á að hraða uppbyggingu faglegra úrræða fyrir þennan hóp barna hér á landi, sem næst fjölskyldu og annarri þjónustu. 

Þetta kemur fram í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

„Ef nýta ætti erlend meðferðarúrræði fyrir meðferð á ábyrgð íslenskra stjórnvalda þyrfti að horfa til lagaumhverfis á Íslandi, alþjóðlegra skuldbindinga, faglegs inntaks meðferðarinnar, réttarstöðu barna og ábyrgðar ef slíkt úrræði bregst með alvarlegum afleiðingum fyrir barnið,“ segir jafnframt í svari ráðuneytisins.

Staðan aldrei verið alvarlegri

Dæmi eru um að foreldrar hafi farið þá leið að senda börn sín í fíknimeðferð í útlöndum vegna úrræðaleysis í þessum málaflokki hérlendis, en slíkt er mjög kostnaðarsamt og hefur hingað til ekki verið niðurgreitt.

Ítrekað hefur komið fram að neyðarástand ríki í málefnum barna með fjölþættan vanda hér á landi og hefur umboðsmaður barna meðal annars kallað eftir tafarlausum úrbótum. Þá sagði Elísa Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri barnaverndar Reykjavíkur, í samtali við mbl.is í mars að staðan væri verri í dag en árið 2023 þegar talið var að botninum væri náð. 

Hóp­ur barna sem glím­ir við al­var­leg­an fíkni- og hegðun­ar­vanda hefði stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barn­anna hefði þyngst, vegna skorts á viðeig­andi meðferðarúr­ræðum á veg­um Barna- og fjöl­skyldu­stofu síðustu ár. Eitt­hvað sem hefði ekki þurft að ger­ast ef börn­in hefðu verið grip­in fyrr og unnið mar­visst í vanda þeirra.

Elísa sagði að til­kynn­ing­um til barna­vernd­ar vegna af­brota, sjálfsskaða og neyslu barna og ung­menna hefði fjölgað til muna vegna þessa.

Útskrifaður þrátt fyrir stöðuga drykkju í meðferð

Ekki hefur verið starfrækt langtímameðferðarúrræði fyrir drengi hér á landi á vegum ríkisins í rúmt ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári. Til stendur að opna Lækjarbakka á nýjum stað í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en það verður í fyrsta lagi í lok september eða í október. 

Í dag er því ekkert sem grípur drengi sem ljúka hefðbundinni meðferð og greiningu á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi og þurfa á framhaldsmeðferð að halda. Það er því hætt við því að börnin leiðist fljótt aftur út á sömu braut og áður og hafa þeir sem til þekkja varað við því að það kunni að gerast.

Í byrjun júní birtist viðtal við móður 16 drengs í þeirri stöðu á mbl.is. Hann var útskrifaður úr Blönduhlíð eftir tólf vikna meðferð, þrátt fyrir að hafa nokkrum dögum áður verið beittur hjartahnoði í lögreglubíl vegna ofdrykkju. Hann hafði þá dottið í það í helgarleyfi, líkt og svo oft áður á meðan hann var í meðferð.

Skoða meðferð í útlöndum þó það sé dýrt

Móðirin í samtali við mbl.is að drengurinn glímdi augljóslega við alvarlegan fíknivanda og þyrfti meiri aðstoð í lengri tíma.

Foreldrarnir sjá í ekki annan kost í stöðunni í dag en að reyna að koma drengnum í meðferð í útlöndum. Móðirin hefur verið í sambandi við meðferðarstofnun í Suður-Afríku þar sem íslensk börn hafa farið í meðferð. Miðað er við að meðferðin taki um níu mánuði, en mánuðurinn kostar um 300 þúsund krónur. 

Þau hafa einnig skoðað meðferðarstofnun á Spáni en þar kostar mánuðurinn um 1,2 milljónir króna.

Blönduhlíð á Vogi er eina meðferðarheimilið þar sem boðið er upp á hefðbundna meðferð og greiningu fyrir börn og unglinga. Sambærileg starfsemi var áður á Stuðlum, en þar eru nú aðallega vistuð börn og unglingar í afplánun og gæsluvarðhaldi, ásamt þyngstu tilfellunum. Verið er að breyta húsnæðinu þannig að það henti betur fyrir þennan hóp barna, en ekki verður hægt að ljúka þeim framkvæmdum fyrr en opnað verður á Lækjarbakka og hægt verður að flytja börn þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert