Sunnanáttir verða heitari með heitari Evrópu

Fólk fækkaði fötum í Nauthólsvík í blíðunni.
Fólk fækkaði fötum í Nauthólsvík í blíðunni. mbl.is/Eyþór

Hæðir austan við landið, sem pumpa heitu lofti yfir það, valda hitabylgjum hér á landi. Lægðir vestan við landið vinna þá með hæðunum til að magna hitabylgjur upp, að sögn Halldórs Björnssonar, fagstjóra veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands.

Halldór segir í samtali við mbl.is áhugavert að sú tegund lofthringrásar, sem veldur hitabylgjum á Íslandi, sé ekki að verða algengari. Segir hann það passa mjög vel við alls konar tölfræði um loftslagsbreytingar.

„Það sem gerist er að ef þú ert með heitari Evrópu og það er verið að dæla inn heitu lofti, þá þarf ekki mikið hringrásarfrávik til að dæla inn óvenjuheitu lofti og flestar sunnanáttir verða bara heitari. Það er kannski útskýringin á þessum niðurstöðum,“ segir Halldór.

Hitastig hærra en búist var við

Vísar hann þar til niðurstaðna skýrslu alþjóðlegs hóps vísindamanna, World Weather Attribution, hjá Grantham-stofnuninni í London, sem vann greiningu á hitabylgjunni á Íslandi í maí. Gefa þær meðal annars til kynna að áhrif hnattrænnar hlýnunar á hana séu vanmetin.

Halldór segir að ef önnur hitabylgja ætti sér stað seinna í sumar, sams konar eða álíka þeirri sem átti sér stað á Íslandi í maí, myndi hitastig líklega fara yfir 30 gráður á sumum stöðum.

Aðalatriðið að hans mati og það sem hann les úr niðurstöðunum er að hægt er að segja með þó nokkuð mikilli vissu að aukin gróðurhúsaáhrif höfðu áhrif til að magna hitabylgjuna í maí og aukin gróðurhúsaáhrif gera slíkar hitabylgjur algengari.

Sérfræðingar sáu hitabylgjuna fyrir um það bil einni viku áður en hún skall á í maí að sögn Halldórs. Segir hann hitastig reyndar hafa verið hærra en ráð var gert fyrir.

Verri áhrif annars staðar

„Það er alltaf ákveðin tilhneiging í öllum svona viðbrögðum að bregðast við því sem veldur þér vandræðum, maður hefur bara gaman af hinu og þetta var tvímælalaust ekki hlutur sem olli sérstökum vandræðum á Íslandi.

Þá má ekki gleyma því að á Grænlandi varð meiri leysing en vanalega og ég hef heyrt af því að það hafi líka verið mjög mikil leysing á Svalbarða en það hef ég ekki skoðað.

Það eru örugglega áhrif annars staðar sem eru ekki alveg jafn góð og hjá okkur. Það er auðvitað þetta klassíska hér eins og að það blæði úr malbiki en það er eitthvað sem þú ræðir við Vegagerðina,“ segir Halldór og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert