„Það beinist að lögreglumönnum ákveðið ofbeldi“

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar …
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Karítas

Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mál þar sem veist er að lögreglumönnum hafa færst í aukana. Mögulega þurfi að skoða hvort auka þurfi réttarvernd lögreglumanna eftir atvikum.

Greint hefur verið frá því að fjórir menn hafi verið handteknir aðfaranótt mánudags eftir að hafa mætt heim til lögreglumanns í Reykjavík vopnaðir hnífum.

Í samtali við mbl.is í gær sagðist Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, hafa þungar áhyggjur af starfsumhverfi lögreglumanna. Sagði hann jafnframt að taka þyrfti harðar á málum þar sem veist er að lögreglumönnum.

Spurður um málið segist Grímur sammála Fjölni og segir umrætt mál vera eina verstu birtingarmynd slíkra mála.

Ákveðið ofbeldi gegn lögreglumönnum að færast í aukana

Hann bendir á að fleiri mál af svipuðum toga hafi komið upp síðustu ár, t.a.m. þegar kveikt var í bíl lögreglumanns fyrir utan heimili hans. Þá hafi Grímur sjálfur lent í því að skemmdarverk voru gerð á bíl hans árið 2023.

„Það var ekkert á við það að það hafi verið kveikt í honum, ég er ekki að meina það, en það beinist að lögreglumönnum ákveðið ofbeldi.“

Finnst þér þetta vera að gerast oftar svona í seinni tíð en það var á árum áður?

„Já, ég er viss um það. Þetta hefur aukist og það er svona einhver meiri svona sá bragur á samskiptum að fólk leyfi sér þetta. Það eru mjög mörg mál sem koma upp á hverju ári þar sem það er með einhverjum hætti veist að lögreglumönnum, þó að þetta tiltekna mál sé þó versta birtingarmynd sem maður getur ímyndað sér.“

Mögulega þurfi að auka réttarvernd eftir atvikum

Í fyrrnefndu samtali við Fjölni Sæmundsson kom fram að ósætti væri með að í málum sem beinast að lögreglumönnum væri ekki ákært fyrir 106. grein hegningarlaga, þ.e. árás á opinberan starfsmann, heldur fyrir skemmdarverk.

Aðspurður segir Grímur það þó ekki alltaf vera svo.

„Það hefur alveg verið ákært fyrir brot gegn valdstjórninni og málin þá rannsökuð sem slík. En síðan kannski sannast það ekki að þetta hafi beinst að viðkomandi af því að hann er lögreglumaður.“

Hann segir að hægt sé að velta fyrir sér réttarvernd lögreglumanna í þeim málum þar sem framin eru brot gegn þeim.

Fjölnir nefnir að það þurfi að taka harðar á svona málum og að þetta þurfi að hafa afleiðingar.

„Já, það getur bara vel verið að það þurfi einmitt að skoða það, og það er það sem ég er að segja þegar ég tala um að auka réttarvernd eftir atvikum. En auðvitað er það þannig með reglur að það er langbest að þær séu sem mest almennar.“

Getur vel verið að Grímur ræði við dómsmálaráðherra

Núna ertu kominn á þing. Sérðu fyrir þér að beita þér eitthvað fyrir þessu?

„Kerfið er náttúrulega þannig að upphaf breytinga á lögum á sér mjög oft stað í ráðuneytunum, sem koma síðan fram með stjórnarfrumvörp, og samtal er oft á tíðum á milli þingmanna og ráðherra um það hvort að sé jafnvel eðlilegt að huga að einhverjum breytingum.

Þannig að það getur bara vel verið að ég taki þetta upp við dómsmálaráðherra einhvern tímann, og hún hefur talað um það að það standi til að endurskoða ýmsar heimildir lögreglunnar, þannig að það getur vel verið að svona mál sé ágætis innlegg inn í svoleiðis breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert