Björn Diljan Hálfdanarson
Seinni part maí varð vart aukningu á Covid-19 greiningum hérlendis. Í vikunni 12. til 18. maí greindust 14 einstaklingar með veiruna og í vikunni þar á eftir greindust 24.
Svona mörg smit hafa ekki greinst á einni viku frá áramótum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Embætti landlæknis.
Flest sýni sem send eru í Covid-19 rannsókn koma úr fólki sem liggur inni á sjúkrahúsi svo fjöldi greininga helst í hendur við fjölda innliggjandi á spítala. Flestir sem greindust núna í maí tilheyrðu hópsýkingu á Landspítalanum meðal sjúklinga og starfsfólks. Sú hópsýking virðist nú vera gengin yfir.
Sóttvarnalækni bárust einnig ábendingar um hugsanleg COVID-19 smit víðar í samfélaginu þar sem einstaklingar töldu sig vera með veiruna.