Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg vegna fundargerðar afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sem var tekin út af heimasíðu borgarinnar og breytt áður en hún var birt aftur.
Greint var frá því í síðasta mánuði að Reykjavíkurborg tók fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa með umsögn um kjötvinnslu í vöruskemmunni við Álfabakka, breytti henni og birti hana aftur daginn eftir.
Í upphaflegri fundargerðinni sagði skipulagsfulltrúinn að á Íslandi væri leyfi til að gera ljótar byggingar á Íslandi mikið.
„Löggjöfin spyr hvorki um fagurfræði né samhengi. Það er því sorgleg staðreynd að þeir sem fara með völd, fjármagn og fyrirferðarmikinn rekstur skuli ekki sýna frekari metnað í uppbyggingu á miðsvæðum höfuðborgarsvæðisins,“ stóð þar jafnframt.
Umboðsmaður Alþingis óskar eftir upplýsingum um hvort að fundargerðin hafi verið tekin út af vefsíðunni og sett inn á nýjan leik með breyttri umsögn skipulagsfulltrúa og þá hvort útgáfa þessarar umsagnar hafi verið samþykkt á fundi.
„Hafi umsögninni verið breytt eftir að fundargerðin var birt er óskað upplýsinga um hvaða breytingar hafi verið gerðar, hvers vegna og á hvaða grundvelli. Hafi breytingar verið gerðar á fundargerðinni er óskað upplýsinga um hvort sú framkvæmd tíðkist almennt við birtingu fundargerða hjá Reykjavíkurborg og þá við hvaða aðstæður.“
Einnig er óskað upplýsinga um síðustu fimm tilvik þar sem fundargerðum var breytt og hvort það tíðkist að gera slíkar breytingar á annað borð.
Umboðsmaður mun ákveða hvort málið verði tekið til frekari athugunar eftir að svar hefur borist við þessum spurningum. Svör borgarinnar skulu berast umboðsmanni í síðasta lagi 26. júní.