Hitabylgjan sem gekk yfir Ísland í maí hafði mikil áhrif á jökla landsins, að sögn Andra Gunnarssonar, formanns Jöklarannsóknarfélags Íslands. Hann segir tímabilið hafa verið með því áhrifamesta sem sést hafi á þessum árstíma, en þó ekki án fordæma.
Andri bendir á að maímánuður sé sá árstími þegar jöklar fara úr söfnunartímabili yfir í leysingar.
„Bæði var mjög lítill vetrarsnjór á jöklum og það hjálpar svolítið til við að koma leysingunni af stað. Þá er ekki þetta þykka hvíta teppi yfir þeim af nýjum snjó sem tekur svolítinn tíma að leysa.“
Hann nefnir mælingar á neðri hluta Brúarjökuls sem dæmi, en þar er Landsvirkjun með mælistöðvar. Þar þynntist ísinn um heilan metra á örfáum dögum í maí, þegar hlýindin voru hvað mest. Þetta sé æði mikil bráðnun.
Þegar spurt er hvaða jöklar á Íslandi séu viðkvæmastir fyrir slíkum hlýindum nefnir Andri litlu jöklana fyrst.
„Þeir svara svona hitabylgjum miklu hraðar. Jöklar eins og Hofsjökull eystri, Þrándarjökull og Tindfjallajökull ná ekki að byggja sig upp eins og þeir stærri, og hver hlýindakafli hefur meiri áhrif á þá hlutfallslega.“
Hann bendir á að þessir jöklar séu þegar margir komnir að fótum fram.
„Því minni sem þeir eru, því minna eiga þeir inni í forðabúrinu.“
Jökulvatn er mikilvægt fyrir raforkuframleiðslu á Íslandi. Þó að leysingar aukist sé það ekki sjálfkrafa slæmt fyrir orkuöflun.
„Stóru jöklarnir eins og Vatnajökull, Hofsjökull og Langjökull eru ennþá í miklu magni og við sjáum enn aukningu í afrennsli til virkjana. Þeir eru ekki byrjaðir að draga sig marktækt saman. Það eru helst minni jöklar sem eru að hverfa en þeir renna yfirleitt til sjávar og hafa því ekki áhrif á raforkukerfið.“
Spurður um framtíðarhorfur segir Andri að þróunin sé skýr. „Við munum missa fjölda minni jökla á næstu áratugum. Þegar hafa horfið á bilinu 40-50 minni jöklar. Stóru jöklarnir munu þó lifa um ókomna tíð, en þeir gefa hratt eftir. Gríðarlegt magn af ís þarf að bráðna áður en þeir hverfa með öllu.“
Hann tekur fram að breytingarnar sjáist helst í jökulröndunum.
„Ég myndi segja að þú takir eftir breytingunum yfir svolítið lengra tímabil. Þá sérðu einhverjar hæðarbreytingar eða þú sérð eitthvert sker sem þú sást ekki áður og það sést mjög greinilega. Mesta breytingin er hvar jökulröndin byrjar hverju sinni. Í hvert skipti sem þú ferð er kannski 10-40 metrum lengra inn á ísinn heldur en var áður. Þetta er ekki svona dramatískt í hvert einasta skipti sem þú kemur en þú sérð svona hægt og rólega hver breytingin er.“
Aðspurður hvort bregðast þurfi við með rannsóknum eða eins konar aðlögun, segir Andri að vakningin hafi þegar orðið.
„Við erum með mjög öfluga vöktun á íslenskum jöklum, bæði hjá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun. En á endanum snýst þetta um loftslagsmál, ef við ætlum að hægja á þessari þróun verðum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“
Hann segir að nýverið hafi vorferð Jöklarannsóknarfélagsins á Vatnajökul verið farin.
„Þá sáust víða ummerki um mikla leysingu og svona frekar þungt færi á jöklinum. Þannig að það er mikið vatn á ferðinni.“
Hann bætir við að júníhretið hafi haft afturvirk áhrif frá hitabylgjunni í maí þegar jöklarnir hopuðu umtalsvert.
„Sumarhretið sem gekk yfir okkur núna í byrjun júní hefur hægt verulega á öllu aftur,“ segir Andri að lokum.
Íslenskir jöklar
Jöklar á Íslandi náðu mestri útbreiðslu undir lok 19. aldar.
Flatarmál þeirra hefur minnkað um 20%, gera má ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.
Sumir jöklar koma til með að hverfa alveg eins og Okjökull suðvestan við Langjökul.
Jöklar þekja nú um 11% af flatarmáli Íslands.
Vatnajökull nær yfir um 8%.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.