Laun hækka umtalsvert og kaupmáttur eykst

Alls voru gerðir nærri 250 kjarasamningar á vettvangi þeirra aðila …
Alls voru gerðir nærri 250 kjarasamningar á vettvangi þeirra aðila sem aðild eiga að Kjaratölfræðinefnd mbl.is/Þorsteinn

Kjarasamningar til ársins 2028  voru undirritaðir fyrir nær allt launafólk, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, á síðasta ári. Grunntímakaup á almennum markaði hækkaði um 10,2% en hækkun á opinberum markaði var minni, eða 5,7% hjá ríki og Reykjavíkurborg og 6,1% hjá öðrum sveitarfélögum. 

Kaupmáttur launa eykst jafnframt en í kjarasamningslotunni sem stóð yfir á seinasta ári jókst kaupmáttur launa um rúm 4%.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í vorskýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kynnt var á opnum fundi nefndarinnar nú í morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara. 

Kjaratölfræðinefnd er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um gerð og hagnýtingu talnaefnis um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri er formaður nefndarinnar. 

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri er formaður Kjaratölfræðinefndar. Hún kynnti skýrsluna á …
Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri er formaður Kjaratölfræðinefndar. Hún kynnti skýrsluna á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ná til um 189.000 manns

Eins og áður segir voru kjarasamningar gerðir fyrir nær allt launafólk á seinasta ári. Alls voru gerðir nærri 250 kjarasamningar á vettvangi þeirra aðila sem aðild eiga að Kjaratölfræðinefnd. Fjöldi félagsfólks á kjörskrám stéttarfélaga í þessum samningum nam 189.000 manns. 

Í þessum samningum var almennt farin blönduð leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana og voru launahækkanir því hlutfallslega mestar á lægri laun. 

Laun hækkuðu mest á almenna markaðinum á seinasta ári þar sem tvær kjarasamningsbundnar hækkanir komu til framkvæmda, en minna á opinberum markaði, þar sem aðeins ein hækkun var en samningum kennara var þá enn ólokið. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins á fundinum í morgunum.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins á fundinum í morgunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægst á innflutningi erlends vinnuafls

Það kemur jafnframt fram í skýrslunni að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði með hægari efnahagsumsvifum. Starfandi fólki á vinnumarkaði hefur fjölgað hægar en áður og færra fólk með erlendan bakgrunn kemur til landsins. 

Framleiðni vinnuafls hefur aukist um 1,5% að meðaltali á ári á árunum 2019-2024 en slíkur vöxtur sést hvergi annars staðar á Norðurlöndum, að segir í skýrslunni.

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, tók jafnframt til máls á fundinum.
Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, tók jafnframt til máls á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert