Naloxone í öll fangelsi landsins

Nefúðinn getur bjargað mannslífum ef hann er gefinn tímalega.
Nefúðinn getur bjargað mannslífum ef hann er gefinn tímalega. mbl.is/Valgarður Gíslason

Nefúðinn Naloxone er frá og með júnímánuði aðgengilegur á öllum göngum í fangelsum Íslands. Ísland er fyrsta landið sem dreifir nefúðanum í öll fangelsi.

Um er að ræða samstarfsverkefni Fangelsismálastofnunar, Matthildarsamtakanna og Afstöðu, félags fanga. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fangelsismálastofnun, Matthildarsamtökunum og Afstöðu.

Veita fræðslu

Naloxone er bráðalyf gegn ofskömmtun á ópíóíðum. Ef það er gefið tímanlega getur það bjargað mannslífum með því að snúa við öndunarbælingu og öðrum skaðlegum afleiðingum ofskömmtunar.

Matthildarsamtökin munu, í samvinnu við jafninga frá Afstöðu, sjá um að veita fræðslu um áhættur ópíóíða og notkun Naloxone inn á öllum göngum í fangelsum landsins. 

Fangelsismálastofnun hefur pantað Naloxone nefúða sem verða settir á alla ganga í fangelsum ásamt upplýsingabæklingi. Að auki fá fangaverði þjálfun í skyndihjálp og notkun Naloxone. Heilbrigðisráðuneytið greiðir kostnað við dreifingu Naloxone á Íslandi. 

Í tilkynningu segir að verkefnið sé meðal annars viðbragð við haldlagningu Tollgæslunnar í apríl síðastliðnum á tuttugu þúsund fölsuðum Oxycontin töflum sem innihéldu Nitazene.

Lyfjatengd andlát hér á landi voru 56 árið 2023 og af þeim voru 61% af völdum ópíóíða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert