Staðan á vinnumarkaði er miklu betri núna en á síðustu árum og það endurspeglast best í því að verðbólga hefur lækkað verulega.
Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir í samtali við mbl.is að lokinni kynningu Kjaratölfræðinefndar á vorskýrslu sinni nú í morgun.
Sigríður segir að þrátt fyrir að verðbólga hafi lækkað þá þurfi aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og Seðlabankinn að vinna í takt svo að verðbólga minnki niður í 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og stöðugleiki náist að fullu á vinnumarkaði.
„Við höfum áhyggjur af því á þessum tímapunkti að opinberi vinnumarkaðurinn sé síendurtekið að brjóta þá launastefnu sem hefur verið mörkuð og að það muni koma í bakið á okkur þegar við gerum næstu kjarasamninga,“ segir Sigríður og nefnir í þessu sambandi nýja kjarasamninga kennara sem og launahækkun æðstu ráðamanna sem tekur gildi um næstu mánaðamót.
Sigríður segir miður að launahækkun æðstu ráðamanna sé svo mikið hærri en á almennum vinnumarkaði. Hún segir að röng framkvæmd laganna valdi þessu og ef ekki væri fyrir þessa röngu framkvæmd laganna væru laun æðstu ráðamanna að hækka um 3,9% í stað 5,6%.
Bætir Sigríður því við að Seðlabankinn hafi verið skýr með það að stýrivextir lækki ekki frekar ef verðbólga hjaðnar ekki. Hún segir kjarasamninga vera „risastórt efnahagslegt“ verkefni og þeir aðilar sem komið að þeim þurfa að horfa á þá til langs tíma. Það verði að hafa í huga þegar næstu kjarasamningar eru undirbúnir.
Sigríður segir Samtök atvinnulífsins vera í hringferð í kringum landið þessa dagana. Hún segir samtökin skynja óvissu hjá landsmönnum.
„Þessi óvissa er ekki tilkomin vegna verðbólgu og vaxta þó allir vilji sjá okkur komast í mark í þeim efnum. Þessi óvissa er tilkomin fyrst og fremst vegna ákvarðana stjórnvalda. Stjórnvöld eru að taka ákvarðanir með stuttum fyrirvara sem eru afdrífaríkar og hafa áhrif á skattlagningu og rekstrarumhverfi fyrirtækja,“ segir Sigríður.