Samtökin Þjóðfrelsi kæra utanríkisráðherra fyrir landráð

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtökin Þjóðfrelsi hafa ákveðið að kæra utanríkisráðherra Íslands fyrir landráð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum sem Arnar Þór Jónsson, lögmaður þeirra og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, forsetaframbjóðandi í síðustu forsetakosningum og formaður Lýðræðisflokksins, sem bauð fram í Alþingiskosningum í haust, sendi út fyrir hönd samtakanna í dag.

Grafið undan dómsvaldi og lagasetningarvaldi Alþingis

Í tilkynningunni segir að með frumvarpi utanríkisráðherra um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, svokallaða bókun 35, sem nú sé til umræðu á Alþingi, sé lagt til að Alþingi lögfesti fyrirmæli um almennan forgang EES-reglna hér á landi, samræmist þær ekki öðru almennu lagaákvæði.

„Slík tilhögun fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenskum rétti, þar sem íslenskir dómstólar hefðu ekki lengur neitt svigrúm til samræmisskýringar eða annarrar viðurkenndrar lagatúlkunar ef íslensk lög stangast á við reglur EES.

Þess í stað er lagt til að skýr íslensk lagaákvæði, sem mæla fyrir um annað en reglur EES, skuli víkja. Túlkunarvald um þessar reglur EES verður með öðrum orðum alfarið fært til erlendra dómstóla,“ sem segir í tilkynningunni.

Samtökin Þjóðfrelsi telja að verði frumvarpið að lögum, yrði með því grafið undan íslensku dómsvaldi, enda segi í 2. gr. stjórnarskrárinnar að enginn skuli fara með dómsvald á Íslandi nema þeir sem réttilega hafi verið skipaðir í dómaraembætti samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 59. gr. stjórnarskrárinnar.

Með frumvarpinu sé í raun einnig verið að grafa undan lagasetningarvaldi Alþingis án þess að stjórnarskráin veiti til þess heimild. Því sé ljóst að frumvarpið samrýmist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Almennum borgurum beri að standa vörð

Í tilkynningu samtakanna segir að hugtakið landráð vísi meðal annars til þess þegar einstaklingar fremji verknað sem miði að því að stofna öryggi eða sjálfstæði íslenska ríkisins í hættu eða koma ríkinu undir erlend yfirráð.

„Framlagning hins tilgreinda frumvarps jafngildir ekki einungis fyrirætlun um trúnaðarbrot í starfi, heldur felur hún einnig í sér brot gegn fullveldi og stjórnskipun landsins. Framlagning og stuðningur við frumvarpið kann því að falla undir verknaðarlýsingar í lögum er varða landráð, en fyrir slík brot ber að höfða sakamál samkvæmt viðeigandi réttarfarslöggjöf,“ sem segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir í tilkynningu samtakanna Þjóðfrelsis að þegar kjörnir fulltrúar bregðist skyldum sínum við stjórnarskrána beri almennum borgurum að standa vörð um lýðveldið og réttarríkið.

Leggja fram kæru hjá ríkislögreglustjóra

„Hópur Íslendinga telur að við þær aðstæður sem hér eru uppi, og lýst hefur verið að framan, sé ekkert úrræði nærtækara en að leggja fram kæru hjá ríkislögreglustjóra á hendur utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem framsögumanns frumvarps um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35),“ sem segir í tilkynningunni.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hafi embættinu m.a. verið falið það sérstaka hlutverk að starfrækja lögreglurannsóknar- og greiningardeild sem hefur það hlutverk að koma í veg fyrir og rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert