Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fyrrverandi utanríkisráðherra segir kæru samtakanna Þjóðfrelsis vera aumkunarvert uppátæki og að ekki sé hægt að taka samtökin alvarlega. Samtökin kærðu utanríkisráðherra fyrir landráð fyrr í dag.
Þórdís kemur þá vörnum fyrir núverandi utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, í skrifum sínum á Facebook. Þar segir Þórdís kæru Þjóðfrelsis vera meðal annars birtingarmynd pólitískra öfga.
Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, forsetaframbjóðandi í síðustu forsetakosningum og formaður Lýðræðisflokksins, sem bauð fram í alþingiskosningum í haust, er lögmaður samtakanna. Hann sendi út tilkynningu Þjóðfrelsis.
Í tilkynningu Þjóðfrelsis segir að með frumvarpi utanríkisráðherra um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, svokallaða bókun 35, sem nú sé til umræðu á Alþingi, sé lagt til að Alþingi lögfesti fyrirmæli um almennan forgang EES-reglna hér á landi, samræmist þær ekki öðru almennu lagaákvæði.
Þá segir jafnframt í tilkynningu samtakanna að þegar kjörnir fulltrúar bregðist skyldum sínum gagnvart stjórnarskránni beri almennum borgurum að standa vörð um lýðveldið og réttarríkið.
Þórdís segir árásina ómerkilega og vera móðgun við aðrar þjóðir sem hafa upplifað svik eigin borgara í þágu óvina.
„Hin raunverulega árás á lýðveldið okkar felst í þessari sneypuför sem farin er annaðhvort af brjóstumkennanlegum óvitaskap eða fáheyrðri illgirni,“ skrifar Þórdís á Facebook-síðu sína.
Þá enda skrif Þórdísar á orðunum: „Þetta er aumkunarvert uppátæki.“