Segir kæru Þjóðfrelsis „aumkunarvert uppátæki“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir Þjóðfrelsi harkalega í …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir Þjóðfrelsi harkalega í skrifum sínum á Facebook. mbl.is/Eyþór Árnason

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fyrrverandi utanríkisráðherra segir kæru samtakanna Þjóðfrelsis vera aumkunarvert uppátæki og að ekki sé hægt að taka samtökin alvarlega. Samtökin kærðu utanríkisráðherra fyrir landráð fyrr í dag.

Þórdís kemur þá vörnum fyrir núverandi utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, í skrifum sínum á Facebook. Þar segir Þórdís kæru Þjóðfrelsis vera meðal annars birtingarmynd pólitískra öfga.

Borgarar standa vörð um lýðveldi og réttarríkið

Arnar Þór Jónsson, fyrr­ver­andi varaþingmaður Sjálf­stæðis­flokks, for­setafram­bjóðandi í síðustu for­seta­kosn­ing­um og formaður Lýðræðis­flokks­ins, sem bauð fram í alþing­is­kosn­ing­um í haust, er lögmaður samtakanna. Hann sendi út tilkynningu Þjóðfrelsis.

Í til­kynningu Þjóðfrelsis seg­ir að með frum­varpi ut­an­rík­is­ráðherra um breyt­ingu á lög­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið, svo­kallaða bók­un 35, sem nú sé til umræðu á Alþingi, sé lagt til að Alþingi lög­festi fyr­ir­mæli um al­menn­an for­gang EES-reglna hér á landi, sam­ræm­ist þær ekki öðru al­mennu laga­ákvæði.

Þá segir jafnframt í tilkynningu samtakanna að þegar kjörn­ir full­trú­ar bregðist skyld­um sín­um gagnvart stjórn­ar­skránni beri al­menn­um borg­ur­um að standa vörð um lýðveldið og rétt­ar­ríkið.

Ómerkileg árás

Þórdís segir árásina ómerkilega og vera móðgun við aðrar þjóðir sem hafa upplifað svik eigin borgara í þágu óvina.

„Hin raunverulega árás á lýðveldið okkar felst í þessari sneypuför sem farin er annaðhvort af brjóstumkennanlegum óvitaskap eða fáheyrðri illgirni,“ skrifar Þórdís á Facebook-síðu sína.

Þá enda skrif Þórdísar á orðunum: „Þetta er aumkunarvert uppátæki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert