Tekinn með fíkniefni og nokkrar milljónir í reiðufé

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á töluvert magn af ætluðum fíkniefnum og nokkrar milljónir í reiðufé við húsleit í íbúð í miðborginni fyrr í vikunni.

Að sögn lögreglu var húsráðandi, sem er karlmaður á fertugsaldri, handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Lögreglan segir enn fremur í tilkynningunni að rannsókninni miði vel.

Talið tengjast fíkniefnasölu

Þá tók lögreglan einnig í sína vörslu síma og tölvur húsráðanda, auk vegabréfs óskylds aðila, en það fannst einnig á vettvangi.

„Grunur leikur á að reiðuféð, sem samanstóð af bæði íslenskum og erlendum seðlum, sé tilkomið vegna sölu fíkniefna,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Hún minnir um leið á upplýsingasíma lögreglu 800 5005.

„Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert