Tvíhliða varnarmálasamstarf við Frakkland eflt

Alexandre Escorcia, skrifstofustjóri málefna Evrópu, Norður-Ameríku og fjölþjóðasamstarfs hjá varnarmálaráðuneyti …
Alexandre Escorcia, skrifstofustjóri málefna Evrópu, Norður-Ameríku og fjölþjóðasamstarfs hjá varnarmálaráðuneyti Frakklands og Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, að lokinni undirskrift. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Tvíhliða varnarmálasamstarf Íslands við Frakkland verður eflt enn frekar en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í utanríkisráðuneytinu við Austurhöfn í vikunni.

Þá fór einnig fram tvíhliða samráð ríkjanna um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála, þar sem öryggisáskoranir á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum var til umræðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Sendinefnd Frakklands ásamt fulltrúum varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Marvin Ingólfssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra …
Sendinefnd Frakklands ásamt fulltrúum varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Marvin Ingólfssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Aðgerðir Íslands kynntar

Í tilkynningunni segir að sömuleiðis hafi málefni Atlantshafsbandalagsins og leiðtogafundur bandalagsins í Haag síðar í mánuðinum verið til umræðu sem og stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu landvinningastríði Rússlands.

Fulltrúum franskra stjórnvalda var boðið í kynningarferð um öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem aðgerðir Íslands til stuðnings sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins voru kynntar, m.a. kafbátaeftirlit og loftrýmisgæsla.

Þá var farið yfir aukna áherslu íslenskra stjórnvalda á öryggis- og varnarmál sem og yfirstandandi vinna við mótun fyrstu öryggis- og varnarmálastefnu Íslands, sem segir í tilkynningunni.

Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og skrifstofustjóri málefna Evrópu, Norður-Ameríku og fjölþjóðasamstarfs hjá varnarmálaráðuneyti Frakklands, undirrituðu viljayfirlýsinguna fyrir hönd ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert