Umfjöllun hafi enga stoð í lagalegum forsendum

Embætti landlæknis segir að það muni ekki tjá sig frekar …
Embætti landlæknis segir að það muni ekki tjá sig frekar um málið, enda sé ákvörðun um sviptingu starfsleyfis heilbrigðisstarfsmanns ávallt kæranleg til heilbrigðisráðuneytisins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Aðsend

Embætti landlæknis segir að umfjöllun sem hafi birst í fjölmiðlum um að Guðmundur Karl Sveinbjörnsson hafi verið sviptur lækningaleyfi hafi enga stoð í þeim lagalegu forsendum sem lagðar hafi verið til grundvallar í málinu. 

Guðmund­ur grein­di frá málinu í gær á Face­book-síðu sinni. Þar sagði hann að bréf þess efn­is að hann væri svipt­ur leyfi hefði verið sent þann 5. júní. Hann krefst end­ur­mats á svipt­ing­unni. 

Embætti landlæknis hefur sent frá sér tilkynningu í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um málið, þar sem stjórnvöldsákvörðun embættisins er staðfest. 

Embættinu áskipað að bregðast við

„Embætti landlæknis ber þá lagalegu skyldu skv. lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 að hafa eftirlit með þeim rekstri heilbrigðisþjónustu sem lögum samkvæmt ber að tilkynna til embættisins áður en starfsemi hefst. Í þeim tilvikum þar sem rekstur heilbrigðisþjónustu hefur ekki hlotið lögbundna staðfestingu landlæknis er embættinu áskipað lögum samkvæmt að bregðast við í samræmi við III. kafla laga um landlækni og lýðheilsu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sömu laga hefur landlæknir heimild til að krefja heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og aðra sem veita heilbrigðisþjónustu um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu,“ segir í tilkynningu landlæknis. 

Tjáir sig ekki frekar um málið

„Embætti landlæknis vill árétta að umfjöllun, sem birst hefur í fjölmiðlum um framangreinda sviptingu starfsleyfis læknis, hefur enga stoð í þeim lagalegu forsendum sem lagðar voru til grundvallar í nefndu máli.

Embætti landlæknis hyggst ekki tjá sig frekar um umrætt mál, enda er ákvörðun um sviptingu starfsleyfis heilbrigðisstarfsmanns ávallt kæranleg til heilbrigðisráðuneytisins,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert