Hiti verður allt að 18 stigum suðvestanlands í dag en frá sjö stigum við norðausturströndina. Búast má við norðaustlægri eða breytilegri átt og bjartviðri, víða 3-10 metrar á sekúndu en að skýjað verði með köflum á Norður- og Austurlandi fram undir hádegi.
Áfram verður bjart á morgun og hiti á bilinu 10 til 19 stig en súld eða dálítil rigning austan til með hita á bilinu 5 til 11 stig.
Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að veður verði fínt í dag og um helgina. Það verði helst fyrir austan þar sem verði einhver súld og svalara loft.
Í samtali við mbl.is segir hann ólíklegt að hitastig nái yfir 20 gráður í dag en gæti farið í 18-19 gráður suðvestan til.
Líklegt sé að það hitastig nái yfir 20 gráður á morgun, að minnsta kosti í uppsveitum sunnalands.
„Almennt séð verður bara mjög fínt veður á landinu en svona kannski síst fyrir austan þar sem verður svalara með þokulofti og rigningu eða súld.“
Hrafn segir að hægur vindur verði á mest öllu landinu en veik skil nálgist á morgun og þeim fylgi norðanstrekkingur á annesjum austanlands.
Á sunnudaginn megi búast við því að það þykkni upp en rofi svo aftur til þegar líða fer á vikuna.