Alvarlegt atvik á Reykjavik Edition-hótelinu

Reykjavik Edition-hótelið í morgun.
Reykjavik Edition-hótelið í morgun. mbl.is/Ólafur Árdal

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að hóteli í miðborginni á áttunda tímanum í morgun vegna alvarlegs atviks sem þar hafði orðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. 

Þar segir að rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi og því ekki unnt að greina frá því nánar að svo stöddu.

Frekari upplýsingar verða sendar fjölmiðlum í dag, eða eftir því sem málinu vindur fram.

Reykjavik Edition-hótelið í morgun.
Reykjavik Edition-hótelið í morgun. mbl.is/Ólafur Árdal

Einni hæð sagt hafa verið lokað

Samkvæmt heimildum mbl.is gerðist atvikið á Reykjavík Edition-hótelinu. Einni hæð hótelsins mun hafa verið lokað af sérsveit ríkislögreglustjóra og gestum sagt að halda sig inni á herbergjum sínum. 

Ekki hefur náðst í lögregluna vegna málsins. 

Lögreglan var kölluð á vettvang.
Lögreglan var kölluð á vettvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppfært kl. 10.22:

Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, staðfestir að sérsveit ríkislögreglustjóra hafi verið kölluð út til aðstoðar lögreglunni á höfuborgarsvæðinu í morgun. Hún segir ágætis viðbúnað hafa verið á staðnum. Málið liggur núna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Uppfært kl. 10.31:

Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að atvikið hafi gerst á Reykjavík Edition-hótelinu. Fjórir sjúkrabílar voru sendir á vettvang og einn dælubíll.

Spurður hvort einhver hafi meiðst segist hann ekkert geta staðfest um það.

Slökkviliðið er ekki lengur á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert