Um 2.800 nemendur brautskrást úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands í dag.
Athöfnin fer fram í tveimur hlutum þar sem nemendur frá félagsvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði og hugvísindasviði brautskrást í fyrri athöfn sem hefst kl. 10. Í síðari athöfninni sem hefst kl. 13.30 brautskrást nemendur af menntavísindasviði og verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, brautskráir nemendur en þetta er seinasta útskriftarathöfnin hans í embætti rektors. Hann lætur af störfum um næstu mánaðamót eftir 10 ár í starfi. Á þeim árum hefur hann brautskráð alls 31.737 nemendur frá HÍ.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, tekur við embætti rektors um næstu mánaðamót.
Fyrri útskriftarathöfnin er fjölmennari en sú síðari. Samtals útskrifast 1.772 nemendur í fyrri athöfn, þar af 744 af félagsvísindasviði, 581 frá heilbrigðisvísindasviði og 447 frá hugvísindasviði. Jón Atli mun ávarpa báðar athafnir en þar að auki mun Þorsteinn Magnússon flytja ávarp fyrir hönd brautskráningarkandídata en hann er að útskrifast með BS í viðskiptafræði.
Beint streymi frá fyrri athöfninni:
Í síðari athöfninni brautskrást 711 manns frá menntavísindasviði og 296 nemendur frá verkfræði- og náttúruvísindasviði. Alls eru það 1.007 nemendur. Ásthildur Bertha Bjarkadóttir mun flytja ávarp fyrir hönd nemenda en hún útskrifast með BA í uppeldis- og menntunarfræði í dag.
Beint streymi frá seinni athöfninni:
Í febrúar brautskráðust 462 kandídatar og hefur því alls 3.241 nemandi útskrifast frá skólanum í ár, að því er segir í tilkynningunni.