Einn fjölfarnasti hjólastígurinn lokaður í rúmt ár

Hjólastígurinn verður lokaður fram á haustið 2026.
Hjólastígurinn verður lokaður fram á haustið 2026. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stend­ur að loka ein­um fjöl­farn­asta hjóla­stíg höfuðborg­ar­svæðis­ins í rúmt eitt ár vegna fram­kvæmda. Hóf­ust þær í vik­unni og lýk­ur ekki fyrr en í ág­úst á næsta ári. Veg­far­end­um er gert að taka hjá­leið, sem er lengri vega­lengd, vegna friðunar á landi.

Til stend­ur að end­ur­nýja hita­veitu­lagn­ir frá Borg­ar­holts­braut meðfram Hafn­ar­fjarðar­vegi.

Leiðin er einn af stofn­hjóla­leiðum höfuðborg­ar­svæðis­ins og er al­geng hjóla­leið til Reykja­vík­ur fyr­ir íbúa Hafna­fjarðar, Garðabæj­ar og Kópa­vogs en kafl­inn sem um ræðir nær frá Hamra­borg til suðurs og út fyr­ir Kópa­vog­stún.

Lagn­ing nýs stígs á þess­um kafla eru hluti af sam­göngusátta­mál­a rík­is og sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu og hafa fram­kvæmd­irn­ar legið fyr­ir í nokk­urn tíma. Þegar lagna­gerðinni er lokið mun Kópa­vogs­bær leggja nýj­an hjóla- og göngu­stíg á þess­um kafla.

Margar kvartanir

Þess­ar fram­kvæmd­ir munu koma til með að valda tals­verðri rösk­un á um­ferð hjólandi og gang­andi um svæðið. Marg­ar kvart­an­ir hafa borist til Er­lend­s Þor­steins­son­ar, for­manns Lands­sam­taka hjól­reiðarmanna, vegna málsins. Kvart­an­irn­ar bein­ast meðal ann­ars að þeirri hjá­leið sem til stend­ur að bjóða fólki upp á.

„Þetta er mikið notaður stíg­ur,“ seg­ir Er­lend­ur. Hann bæt­ir því við að hjá­leiðir fyr­ir gang­andi og hjólandi séu oft skraut­leg­ar og að í þessu til­felli hafi fólk eng­an raun­hæf­an mögu­leika á því að kom­ast leiða sinna án þess að fara í gegn­um nær­liggj­andi hverfi.

Er­lend­ur seg­ist ekki hafa fengið nein­ar mynd­ir frá svæðinu og sé því ekki bú­inn að mynda sér skoðun á því hvort laga þurfi leiðina. 

Hann seg­ir að ef hjá­leiðunum verði ekki haldið við gæti þetta haft áhrif á hluta hjólandi og gang­andi veg­far­enda í vet­ur. „Þá eykst um­ferðin,“ seg­ir hann.

Kort sem sýnir hjólastíginn sem um ræðir. Nær svæðið frá …
Kort sem sýnir hjólastíginn sem um ræðir. Nær svæðið frá Borgarholtsbraut nærri Hamraborg (uppi á myndinni) og niður meðfram Hafnarfjarðarvegi, yfir Kópavogsbraut og niður meðfram Kópavogstúni að undirgöngunum yfir í Kópavogsdal. Skjáskot/Veitur

 

Ekki sama meðferð fyrir akandi

Er­lend­ur seg­ir að ef um hefði verið að ræða um­ferð ak­andi vegfarenda hefði ekki verið tekið eins á mál­um. „Ef þetta væru bíl­stjór­ar þá hefði verið byrjað á því að mal­bika ein­hvern veg þarna til hliðar,“ seg­ir hann.

Hann rifjar upp fram­kvæmd­ir á Stekkj­a­bakka sem voru fyr­ir nokkr­um árum þar sem þurfti að taka upp bæði göt­una og stíg­inn. Hann seg­ir að það hafi verið mal­bikaður stíg­ur fyr­ir bíla en að ekk­ert hafi verið gert fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur.

Þess má geta að fram­kvæmd­irn­ar munu líka hafa áhrif á Strætó þar sem strætó­leiðir 1 og 2 munu ekki stoppa Kárs­nes­meg­in við Kópa­vogs­dal. Það er gert til að tryggja ör­yggi veg­far­enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert