Til stendur að loka einum fjölfarnasta hjólastíg höfuðborgarsvæðisins í rúmt eitt ár vegna framkvæmda. Hófust þær í vikunni og lýkur ekki fyrr en í ágúst á næsta ári. Vegfarendum er gert að taka hjáleið, sem er lengri vegalengd, vegna friðunar á landi.
Til stendur að endurnýja hitaveitulagnir frá Borgarholtsbraut meðfram Hafnarfjarðarvegi.
Leiðin er einn af stofnhjólaleiðum höfuðborgarsvæðisins og er algeng hjólaleið til Reykjavíkur fyrir íbúa Hafnafjarðar, Garðabæjar og Kópavogs en kaflinn sem um ræðir nær frá Hamraborg til suðurs og út fyrir Kópavogstún.
Lagning nýs stígs á þessum kafla eru hluti af samgöngusáttamála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hafa framkvæmdirnar legið fyrir í nokkurn tíma. Þegar lagnagerðinni er lokið mun Kópavogsbær leggja nýjan hjóla- og göngustíg á þessum kafla.
Þessar framkvæmdir munu koma til með að valda talsverðri röskun á umferð hjólandi og gangandi um svæðið. Margar kvartanir hafa borist til Erlends Þorsteinssonar, formanns Landssamtaka hjólreiðarmanna, vegna málsins. Kvartanirnar beinast meðal annars að þeirri hjáleið sem til stendur að bjóða fólki upp á.
„Þetta er mikið notaður stígur,“ segir Erlendur. Hann bætir því við að hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi séu oft skrautlegar og að í þessu tilfelli hafi fólk engan raunhæfan möguleika á því að komast leiða sinna án þess að fara í gegnum nærliggjandi hverfi.
Erlendur segist ekki hafa fengið neinar myndir frá svæðinu og sé því ekki búinn að mynda sér skoðun á því hvort laga þurfi leiðina.
Hann segir að ef hjáleiðunum verði ekki haldið við gæti þetta haft áhrif á hluta hjólandi og gangandi vegfarenda í vetur. „Þá eykst umferðin,“ segir hann.
Erlendur segir að ef um hefði verið að ræða umferð akandi vegfarenda hefði ekki verið tekið eins á málum. „Ef þetta væru bílstjórar þá hefði verið byrjað á því að malbika einhvern veg þarna til hliðar,“ segir hann.
Hann rifjar upp framkvæmdir á Stekkjabakka sem voru fyrir nokkrum árum þar sem þurfti að taka upp bæði götuna og stíginn. Hann segir að það hafi verið malbikaður stígur fyrir bíla en að ekkert hafi verið gert fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Þess má geta að framkvæmdirnar munu líka hafa áhrif á Strætó þar sem strætóleiðir 1 og 2 munu ekki stoppa Kársnesmegin við Kópavogsdal. Það er gert til að tryggja öryggi vegfarenda.