Í sætu svörtu timburhúsi lengst uppi í skógi vaxinni hlíð sitja þau Urður Gunnarsdóttir og Helgi Gíslason utandyra í sólinni að spjalla saman eftir vinnudaginn. Kötturinn Lúðvík von Krump spígsporar um pallinn en hefur takmarkaðan áhuga á gestinum, fuglarnir syngja allt í kring og í fjarska má heyra einstaka jarm. Þarna á Fljótsdalshéraði ríkir kyrrðin ein, fjarri ys og þys höfuðborgarinnar. Blaðamaður sest með þeim í sólina og er forvitin að komast að því hvers vegna heimsborgarinn Urður er sest að lengst upp í sveit. Urður, sem er með háskólapróf í dönsku, á að baki feril í blaðamennsku og utanríkisþjónustunni og hafði alltaf búið í borgum; oft stórborgum og stundum meira að segja í stríðshrjáðum borgum. Eftir heimkomuna bjó hún um hríð í Reykjavík en þegar Helga, sambýlismanni hennar, var boðin staða sveitarstjóra Fljótsdalshrepps, var hún meira en til í að flytja austur.
„Þetta er í fyrsta skipti sem hún býr í sveit,“ skýtur Helgi inn í og dregur sig svo í hlé en við Urður sitjum áfram og njótum sólar.
Urður hóf störf á Morgunblaðinu tvítug að aldri og var síðar í hlutastarfi á meðan hún lærði dönsku í háskólanum.
„Ég man að einn fréttastjórinn á Morgunblaðinu spurði mig hvað ég ætlaði að gera með dönskuna; hvort ég ætlaði í alvöru að verða dönskukennari. En ég svaraði í gríni að ég ætlaði að verða sendiherra og endaði svo í utanríkisþjónustunni,“ segir hún og glottir.
„Ég prófaði að kenna dönsku í framhaldsskóla en ég tók það svo inn á mig hvað nemendurnir hötuðu dönskunámið og var að kikna undan því að reyna að vekja áhuga þeirra,“ segir hún og hlær.
„Ég man að ég stóð skjálfandi fyrir framan þau og ákvað á þeirri stundu að ég myndi aldrei aftur kenna dönsku. Og hef ekki gert það eftir þessa lífsreynslu. Ég var bara 22 ára og þetta var gjörsamlega yfirþyrmandi fyrir ungu konuna,“ segir hún og brosir.
Urður fór svo aftur í fullt starf á Morgunblaðinu eftir námið og segir það fljótlega hafa komið sér vel að kunna dönsku, en hún var gjarnan sett í verkefni sem tengdust Norðurlöndunum og endaði á erlendu deildinni eftir að hafa verið á sunnudagsblaðinu og í innlendum fréttum.
„Svona gerast hlutirnir oft þó að maður sjái þá ekki fyrir sér,“ segir Urður.
„Mig langaði svo að ferðast og prófa að flytja til útlanda og sá ekki fram á það á meðan ég vann á Mogganum. Svo gripu örlögin í taumana; ég tók eitt sinn viðtal við konu sem vann í utanríkisráðuneytinu og það leiddi til þess að við stofnuðum samtök til að vinna gegn fordómum í garð innflytjenda. Hún var eitt sinn að kvarta yfir því að það vantaði fólk í friðargæsluna og ég ákvað að slá til. Ég var send til til Kósovó, þar sem ég var í eitt og hálft ár. Ég var auðvitað að fara á taugum áður en ég fór af stað því þar voru átök. Það átti að heita vopnahlé en þarna voru alltaf einhverjar árásir. En ég gat ekki látið það sannast að ég þyrði ekki að fara,“ segir Urður og var hún í Kósovó í átján mánuði frá ársbyrjun 1999; stríðinu lauk í júní það ár en eimdi eftir af því þegar Urður var þar.
Lentir þú í hættu í vinnu þinni erlendis?
„Ég þurfti að fara á jarðsprengjunámskeið þegar ég fór fyrst út; að læra að forðast jarðsprengjur. Svo nokkrum árum seinna var ég á ferð með hópi fólks og við vorum eins og bjánar að ganga á svæði sem reyndist vera jarðsprengjusvæði. Maðurinn fyrir framan sá allt í einu þráð, en þessar sprengjur voru ekki grafnar í jörðu heldur voru þetta stautar sem þráður var strengdur á milli. Þannig að þetta var heldur óskemmtilegt,“ segir Urður og brosir út í annað.
„Við bökkuðum með því að stíga í sömu spor, eins og við lærðum á námskeiðinu, og það er meira en að segja það! Þetta voru kannski tíu eða tuttugu metrar en virkaði eins og heil eilífð! Ég var svo hrædd um að sjá vini mína sprengda í loft upp fyrir framan mig og gat ekki horft. Þetta var hræðilega óþægileg tilfinning!“ segir Urður.
„Það voru alls konar uppákomur sem við lentum í; uppákomur sem ég er ekkert endilega sérlega stolt af, enda áttum við ekkert að vera að þvælast þarna,“ segir hún.
„Ég var þarna úti sem borgaralegur starfsmaður en áður en ég fór út var ég send á hraðnámskeið hjá sérsveitinni og þeir töldu að það sem væri gagnlegast fyrir mig væri að kunna að setja öryggi á byssur og halda ró minni innan um skotvopn. Ég var því látin æfa mig að skjóta og setja öryggið á nokkrar hríðskotabyssur,“ segir Urður og brosir.
„Og það reyndist gagnlegt því ég var oft innan um vopnað fólk, hermenn og aðra, og var eitt sinn stöðvuð af mjög ölvuðum manni með byssu,“ segir hún.
Urður lenti í fleiri ævintýrum, ef ævintýri skyldi kalla.
„Eftir að ég sneri aftur á Moggann var ég einu sinni í hópi blaðamanna sem voru handteknir í Makedóníu þar sem við vorum að þvælast á átakasvæði. Á meðan verið var að færa okkur til höfuðborgarinnar náði einn blaðamaðurinn að hringja í innanríkisráðherrann sem hann var með númerið hjá. Þegar átti svo að stinga okkur inn var komin skipun frá honum um að sleppa okkur.“
Urður segist ekki sjálf hafa verið vitni að stríði eða átökum, en afleiðingar stríðsins voru sýnilegar allt í kring.
„Eftir átökin fórum við aftur inn í Kósovó frá Makedóníu. Þá voru fjöldagrafir úti um allt og eitt sinn sá ég þegar verið var að grafa upp fjöldagröf, sem var hræðilegt. Við slíkar aðstæður verður hryllingur stríðsátaka ekki umflúinn og það hafði mikil áhrif á mig að vera á svæðinu þegar afleiðingarnar voru að koma í ljós á sama tíma og fólk var að reyna að ná tökum á lífi sínu. Spennan á milli þjóðernishópanna var enda mikil og til dæmis erfitt að fara á milli svæða þar sem ólíkar þjóðir bjuggu. Því vorum við útlendingarnir stundum fengnir til að keyra sjúkrabílana. Ég var búin að vera á slíkri bakvakt í nokkra mánuði og þessu fyrirkomulagi var alveg að fara að ljúka. Ég hugsaði með mér að ég hefði sloppið vel. Svo kom að síðasta deginum og þá hringdi síminn! Þetta var í júlí og það var svakalegur hiti og mér var sagt að keyra hertrukk eins og hálfs tíma vegalengd til að ná í lík sem hafði fundist úti í skógi og hafði verið þar í þó nokkurn tíma. Ég hitti þarna hermenn sem skipuðu mér glottandi að setja líkið í poka en ég harðneitaði og sagði að þeir yrðu að sjá um það, sem þeir gerðu á endanum. Ég keyrði svo með líkið til höfuðborgarinnar og þegar þangað var komið var ástandið aftur í bílnum orðið þannig að ég þakkaði mínum sæla fyrir sérhæfðu starfsmennina sem tóku við. Þetta var rosaleg lífsreynsla og óraunveruleg.“
Eftir dvölina í Kósovó flutti Urður til Kaupmannahafnar, þar sem hún var fréttaritari Morgunblaðsins í eitt ár.
„Ég var þá send um alla Evrópu og meðal annars á Balkanskagann. En svo hrundi þorskstofninn, krónan féll og Mogginn sagði upp slatta af fólki, þar á meðal fréttariturum erlendis. Kollegi minn frá Kósóvó frétti að ég væri að leita að vinnu og bauð mer að koma til Bosníu og þar vann ég í tvö ár sem talsmaður ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu). Þaðan fór ég til Póllands fyrir ÖSE og var á heilmiklu flakki, einkum um fyrrverandi Sovétríkin og Balkanskagann. Og allt í einu voru liðin níu ár frá því að ég flutti út,“ segir Urður, sem ákvað árið 2008 að kominn væri tími til að flytja heim og fór þá að vinna hjá utanríkisráðuneytinu sem fjölmiðlafulltrúi. Hún kom því beint heim á því herrans hrunári.
„Ég var lengi að átta mig á því hvað væri að gerast því ég hafði í raun lítið fylgst með fréttum heima á meðan ég var úti,“ segir hún.
„Svo kom hrunið og þar sem við vorum bara tvö sem vorum fjölmiðlafulltrúar ríkisstjórnarinnar var ég lánuð niður í forsætisráðuneytið. Það var rosalegur tími. Ég hafði áður verið í erfiðum aðstæðum í vinnu minni erlendis, en þá var ég ekki í mínu heimalandi og vissi að ef illa færi gæti ég alltaf farið heim. En þegar ég var heima og hrunið byrjaði upplifði ég óöryggi sem ég tengdi við hversu ólíkt það er að vinna í málum sem snerta manns eigið land. Ég var kölluð heim úr vinnuferð í útlöndum tveimur dögum áður en Geir hélt ræðuna frægu. Það var hringt í mig og ég sagðist koma heim daginn eftir. En svarið var bara: „Nei, þú ert að koma heim í dag!“ Ég rauk heim og þá byrjaði hasarinn. Mesti tryllingurinn var í fyrstu vikunni og vikunum,“ segir Urður.
„Og nú eru liðin sautján ár! En mér finnst auðvitað ekki svona langt síðan.“
Sambýlismanninum kynntist Urður tveimur árum eftir að hún flutti heim.
„Frænka mín þekkti Helga og skipaði honum að bjóða mér á deit,“ segir Urður og segist ekki muna nákvæmlega hvaða veitingastað hann svo bauð henni á.
„Ég er svo hryllilega órómantísk.“
Var það ást við fyrstu sýn?
„Tja, svona fljótlega,“ segir Urður og brosir.
Urður fór aftur utan árið 2017 og hóf þá aftur störf hjá ÖSE, með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
„Hana vantaði fólk þannig að ég fór til Varsjár og vann með Ingibjörgu hjá ÖSE í rúm tvö ár. Þá var ég í raun að vinna fyrir ráðuneytið. Vinnan snerist mikið um kosningaeftirlit og það voru mikil samskipti við fyrrverandi Sovétríkin. Ég man að þegar ég var í Póllandi í fyrra skiptið, 2003 til 2008, ríkti trú á að allt horfði til betri vegar; að lýðræði og mannréttindi væru að batna í Evrópu. En ég upplifði allt annað þegar ég kom aftur út, afturför víða og samskiptin við Rússland orðin mjög stirð,“ segir Urður, en hún var mikið á ferðinni og segir að þó að hún hafi búið í nokkur ár í Póllandi hafi sér ekki gengið vel að læra pólsku.
„Þetta er ofboðslega erfitt tungumál sem ég skil hrafl í og gat gert mig skiljanlega á en ekki meira en það,“ segir hún.
„Svo kom covid og við flýttum okkur heim þegar allt lokaðist, árið 2020. Ég hélt áfram að vinna, en frá Íslandi. Einn daginn tilkynnti maðurinn minn mér svo að hann væri búinn að fá vinnu sem sveitarstjóri í Fljótsdal. Ég hugsaði með mér; „guð minn góður, þarf ég nú að flakka á milli Póllands og þaðan alla leið austur á land? Hvaða vesen er það?““ segir Urður, sem sá þá fyrir sér að fara aftur til Póllands að loknum faraldrinum.
„En ég ætlaði mér kannski ekkert að vera erlendis mikið lengur og það var mikil óvissa um hvenær allt myndi opnast aftur. Mig hafði alltaf langað til að búa úti á landi og oft talað um það en enginn tekið mark á því. Helgi hafði enga trú á þessu frekar en aðrir í kringum mig. Ég hafði bara komið hingað á sumrin í góðu veðri en við ákváðum að slá til og Helgi flutti um sumarið en ég flutti í nóvember 2020, á dimmasta tímanum. Mér fannst þetta æðislegt frá fyrstu stundu!“ segir Urður.
„Það hjálpaði til að þetta var í covid því þá var auðveldara að vera í sveit en borg. Hér gat ég farið beint út í náttúruna að labba; engar áhyggjur af fjarlægðarreglum,“ segir Urður og segir dásamlegt að bíða af sér covid í sveitinni á Fljótsdal.
Fékkstu strax vinnu?
„Ekki alveg strax. Í upphafi ætlaði ég að taka því rólega og taka að mér einstaka verkefni, eins og kosningaeftirlit erlendis. En svo vantaði manneskju hjá Austurbrú í verkefni á Seyðisfirði og ég réð mig í það en bara ár og ár í senn. Ég fékk stöku sinnum að fara í burtu í verkefni fyrir utanríkisráðuneytið og í kosningaeftirlit og var einu sinni í tvo og hálfan mánuð í Georgíu, sem var frábært. Svo dregst maður meira og meira inn í starfið hér og nú er ég að brasa í öllu mögulegu,“ segir Urður, en Austurbrú sameinar byggða- og atvinnuþróun, fræðslumál, markaðsmál og rannsóknir á öllu Austurlandi.
„Ég get unnið níu til fimm í fyrsta skipti á ævinni, sem er algjörlega nýtt fyrir mér. Það tók mig smá tíma að venjast því,“ segir Urður.
„Það sem mér finnst allra best við að búa hér er nálægðin við náttúruna, bæði á veturna og sumrin. Í grunninn er lífið hér einfaldara. Maður er aldrei fastur í umferð og hér er mestallt sem þarf. Ef það er ekki nóg get ég farið í bæinn. Flugvöllurinn minnir mig á að ég er bara 50 mínútur frá Reykjavík, svo að mér finnst ég aldrei vera langt í burtu. Það eru ótrúleg gæði fólgin í því að búa hér. Hér kíki ég í fjárhúsin á næsta bæ og heilsa svo upp á hestana og vegna þess að hér er svo mikill skógur er alltaf hægt að fara út að ganga, þó að veðrið sé vont. Ég hefði ekki trúað því hvað mér líður vel hér, þó að ég sakni auðvitað fólksins í bænum og stundum sakna ég líka utanríkisráðuneytisins; það er frábær vinnustaður og svo hef ég enn mikinn áhuga á utanríkismálum. En það er gaman – og nauðsynlegt – að prófa eitthvað nýtt og svo þegar öllu er á botninn hvolft er vinna bara vinna.“
Urður heldur líka tengingu við útlönd, en hún er stjórnarformaður í mannréttinda- og lýðræðissamtökunum DRI (Democracy Reporting International) sem eru með höfuðstöðvar í Berlín. Um 90 manns starfa þar við lýðræðis- og réttarfarsúrbætur, kosningaeftirlit, greiningar á samfélagsmiðlum og að vinna gegn upplýsingaóreiðu.
Urður segir að það starf sem standi upp úr sé blaðamennskan.
„Ekkert starf hefur búið mig betur undir lífið. Það ætti að skylda alla til að vinna sem blaðamenn í smá tíma! Maður lærir að vanda sig, vinna hratt og halda sig við staðreyndir, bætir sig í íslensku og lærir að bjarga sér því það þarf að hringja í fólk í alls kyns aðstæðum. Þetta er ótrúlega góður skóli og mikið lán að hafa fengið að vinna á Mogganum á sínum tíma.“
En lífið er ekki bara vinna og útivera og Urður segir að sér hafi gengið ágætlega að kynnast fólki á svæðinu, en hún á ættingja fyrir austan og hefur einnig eignast bæði vini og kunningja í gegnum vinnuna.
„Það sem var þó skemmtilegast af öllu var að taka þátt í að sjá um þorrablótið í Fljótsdal í fyrra. Mér leist nú mátulega vel á þetta í upphafi en þetta er bara eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni. Ég hef hlegið að því að ef ég hefði horft á þetta úr bænum hefði ég örugglega ranghvolft augunum yfir þessu brasi,“ segir hún, en venjan er að um tuttugu til þrjátíu heimamenn taki að sér skipulagninguna.
„Við sömdum skemmtiatriðin sjálf, æfðum og lékum. Þetta var svo ótrúlega skemmtilegt og maður kynnist nágrönnum sínum svo miklu betur. Algjör snilld,“ segir Urður.
„Svona er nú komið fyrir borgarbarninu sem hafði aldrei búið í sveit og hvorki farið á sveitaball né þorrablót,“ bætir hún við og drífur blaðamann inn í eldhús þar sem hún eldar ofan í hann dýrindis kvöldmat. Blaðamaður kvaddi svo íbúana í svarta húsinu á hæðinni, margs vísari, södd og sæl í kvöldsólinni á Austurlandi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.