Tveir erlendir ferðamenn fundust látnir

Tvö mótorhjól lögreglunnar í bílakjallara Reykjavík Edition í morgun.
Tvö mótorhjól lögreglunnar í bílakjallara Reykjavík Edition í morgun. mbl.is/Ólafur Árdal

Tveir erlendir ferðamenn fundust látnir á hóteli í miðborginni á áttunda tímanum í morgun. Þriðji aðilinn, einnig erlendur ferðamaður, var einnig á vettvangi og var hann með áverka.

Viðkomandi var færður undir læknishendur, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Tilkynning um málið barst lögreglunni kl. 7.14 en málsatvik eru um margt óljós enda rannsókn þess á frumstigi, segir í tilkynningunni.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, segir lögreglan.

Reykjavik Edition-hótelið .
Reykjavik Edition-hótelið . mbl.is/Ólafur Árdal

Fjórir sjúkrabílar og einni hæð lokað

Fyrr í morgun staðfesti slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu við mbl.is að atvikið hefði gerst á Reykjavik Edition-hótelinu. Fjórir sjúkrabílar voru send­ir á vett­vang og einn dælu­bíll.

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is var einni hæð hót­els­ins lokað af sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra og gest­um sagt að halda sig inni á her­bergj­um sín­um. 

Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, staðfesti við mbl.is í morgun að sérsveitin hefði veitt lögreglunni aðstoð.

Reykjavik Edition-hótelið í morgun.
Reykjavik Edition-hótelið í morgun. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert