Fáheyrður þingfundur á sunnudegi

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Karítas

Boðað hefur verið til þingfundar í dag, sunnudag, kl. 13. Þetta heyrir til tíðinda enda er afar fáheyrt að boðað sé til fundar á sunnudögum.

Eftir því sem mbl.is kemst næst hefur þetta aðeins gerst tvisvar sinnum svo heimildir séu fyrir því, og þar af var annað skiptið áður en Ísland hlaut lýðveldi og fullveldi. 

Undanfarna daga hefur svokölluð Bókun 35 við samninginn um evrópska efnahagssvæðið verið til annarra umræðu. Miðflokkurinn hefur verið fremstur meðal flokka í þeirri umræðu.

Eitt fordæmi í sögu lýðveldis

Sunnudaginn 2. ágúst 1914 var haldinn þingfundur en samkvæmt viðtali mbl.is við Helga Bernódusson frá árinu 2015 var boðað til þess þingfundar vegna þess að grípa þurfti til neyðarrástafana við upphaf fyrra stríðs. 

Í sama viðtali sagði Helgi:

Eins og áður hef­ur komið fram hafa stund­um verið sett­ir fund­ir í þing­inu á aðfaranótt sunnu­dags, til dæm­is við þinglok. Regl­an er þó skýr, að Alþingi held­ur ekki þing­fundi á sunnu­dög­um. Henni hef­ur verið fylgt síðustu ára­tug­ina býsna stíft.“

Nokkur dæmi eru um að þing­fund­ir sem hefjist á laugardegi gangi inn í sunnu­dag­inn, eins og gerðist í nótt, og dæmi er um að boðað sé til fund­ar sé boðað seint á sunnudegi vegna sérstakra aðstæðna.

Hið síðarnefnda kom til árið 2015, en þá var verið að klára afgreiðslu frumvarpa vegna gjaldeyrishaftamála svo þeim væri lokið áður en markaðir opnuðu á mánudegi, til að tryggja jafnræði markaðsaðila.

Um það sagði Össur Skarphéðinsson, þá þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðu á Alþingi þann sunnudaginn:

„Þetta er í fyrsta skipti sem Alþingi er kvatt saman á sunnudegi. Það hefur aldrei gerst á lýðveldistímanum fyrr. Það hlýtur að vera eitthvað mjög mikilvægt. Jú, það er þetta frumvarp, en ríkisstjórnin er búin að vera mánuðum saman að undirbúa þetta. Hvers vegna er þá nauðsynlegt að gera þetta núna í kvöld?“

Sunnudagur góður til vinnu

Þingmenn Miðflokksins spurðu forseta þingsins, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að því hverju sætti að þingfundur stæði enn eftir miðnætti liðna nótt. Sigríður Á. Andersen gerði við það alvarlegar athugasemdir..

„Að hér sé fundað á sunnudegi, jafnvel þótt það sé ekki kominn dagur eða messutími, en að það sé gengið yfir miðnætti á sunnudegi hér í þinghaldi. Mér telst til að það hafi gerst þrisvar á síðasta aldarfjórðungi og þá átti við um brýnt neyðaratvik í sögu þjóðarinnar.“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins. Hún gerir alvarlegar athugasemdir við …
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins. Hún gerir alvarlegar athugasemdir við þinghald á sunnudegi. mbl.is/Eyþór

Forseti þingsins bætti í kjölfarið í og greindi frá því að hún hefði sent skilaboð á formenn þingflokkanna um að það komi til greina að hald þingfund á sunnudeginum, en ekki hefði verið tekin ákvörðun um það.

„Hvað varðar hvíldardaginn, þá er hann vissulega haldinn heilagur víða um heim. Ekki alltaf á sunnudögum, stundum á laugardögum og stundum á föstudögum. Sunnudagur er fyrsti dagurinn í vikunni. Góður til vinnu og góður til heilla hugsana. Við skulum bara sjá hvað verður.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis segir sunnudaga góða til vinnu og …
Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis segir sunnudaga góða til vinnu og heillar hugsunar. mbl.is/Eyþór

Tafir á eftirgjöf fullveldisréttar þjóðarvá

Úr varð að þingfundur stóð fram á þriðja tímann í nótt og jafnframt var boðað til þingfundar í dag. Ljóst er því að hefðir og venjur um að þinghald sé ekki á sunnudögum, eru tvíbrotnar á þessum sögulega sunnudegi.

Ekki er augljós brýn þörf á fundarhaldi á sunnudegi, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson viðraði sínar kenningar um hina brýnu þörf í ræðu á þingi í nótt þegar klukkan var langt gengin í eitt:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins hefur kenningar um hvað ríkisstjórnin …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins hefur kenningar um hvað ríkisstjórnin telur sem þjóðarvá. mbl.is/Eyþór

„Þá vitum við hvað telst þjóðarvá að mati núverandi ríkisstjórnar og meirihluta hér í þinginu. Það er ekki heimsfaraldur, það er ekki efnahagshrun, það er ekki eldgos, heldur óttinn við það að það verði tafir á því að ríkisstjórnin geti gefið eftir af fullveldisrétti Íslendinga til Evrópusambandsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert