Tvö kynferðisafbrotamál og líkamsárás eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Atvikin áttu sér stað á Akureyri um helgina. Fimm eru í haldi hjá lögreglu í tengslum við málin og bíða yfirheyrslu. Málin eru þó aðskilin.
Þetta segir Börkur Árnason, varðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.
Hann segir helgina annars hafa gengið þokkalega. „Frá því á föstudag eru tæplega 300 mál á skrá hjá okkur, sem er í meira lagi,“ segir Börkur.
Um 40 manns voru teknir fyrir of hraðan akstur um helgina, bæði á Akureyri og í nærsveitum. „Síðan erum við með myndavél sem tekur hraðakstur líka og það voru í kringum 50 þar,“ segir Börkur. Þetta eru því í kringum 90 mál vegna hraðaksturs.
Bíladagar á Akureyri standa yfir fram á þriðjudag og var því mikil dagskrá í bænum um helgina.