Franskir fjölmiðlar fjalla um morðin

Fjöldi erlendra miðla hefur fjallað um málið í dag.
Fjöldi erlendra miðla hefur fjallað um málið í dag. Skjáskot/Liberation/Le Parisien/Le Télégramme/CBS News

Fjöldi erlendra fréttamiðla, sér í lagi franskra miðla, hefur í dag fjallað um morðmálið á Edition-hótelinu þar sem frönsk kona er grunuð um að hafa banað eiginmanni sínum og dóttur.

Franska fréttaveitan AFP birti umfjöllun um málið upp úr hádegi og í kjölfarið birtu miðlar á borð við Liberation, Le Parisien og Le Télégramme frá Frakklandi og CBS News frá Bandaríkjunum fréttir þar sem sagt var frá manndrápsmálinu.

Inntak allra fréttanna er nokkurn veginn það sama en í þeim öllum er byrjað á að segja frá því að frönsk ferðakona á sjötugsaldri sé í haldi lögreglu á Íslandi, grunuð um að hafa myrt eiginmann sinn og fullorðna dóttur á lúxushóteli í Reykjavík í gær.

Rónni á Íslandi raskað undanfarin ár

Þá er vitnað í umfjöllun Ríkissjónvarpsins um málið og haft eftir Ævari Pálma Pálmasyni, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjóni hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu sem fer jafnframt fyrir rannsókn málsins, að hin látnu hafi verið með áverka, þar á meðal hnífstungur.

Sagt er frá því að konan sem grunuð er um verknaðinn hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald fram á föstudag.

Í lok umfjöllunar AFP er tekið fram að „morð og banvæn ofbeldisverk séu sjaldgæf á þessari eyju í Norður-Atlantshafi, sem skipar reglulega efstu sæti Alþjóðlegu friðarvísitölunnar“ en að „nokkrar skotárásir og árásir með eggvopnum, sem lögreglan tengir við glæpagengi, hafa þó raskað hinni venjubundu ró á Íslandi á undanförnum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert