Bæst hefur í hóp þeirra sem gagnrýna vöruskort í fríhöfn Keflavíkurflugvallar. Vöruskorturinn hefur fengið talsverða fjölmiðlaumfjöllun og þar að auki hefur fjöldi fólks birt færslur á samfélagsmiðlum sínum af galtómum hillum.
Vöruskortur á bæði sterku- og léttvíni hefur tekið mikið pláss í umfjölluninni en ljóst er að fleiri vörutegundir eru undir.
Óskar Magnússon, stjórnarformaður Eimskips, er einn þeirra sem birti nýverið mynd af vöruskortinum á Facebook-síðu sinni. Hann segist þó hafa fengið myndina að láni en hefur tvívegis farið í gegnum fríhöfnina á síðastliðnum fjórum vikum.
„Þetta er búið að vera um alla fríhöfn, bæði uppi og niðri í fjórar vikur," segir Óskar í samtali við mbl.is Hann kveðst ekki einu sinni hafa getað keypt sér panodil-verkjatöflur í apótekinu á flugvellinum.
„Væntanlega er hér um að ræða þvingunaraðgerðir nýrra eigenda gagnvart birgjum til að knýja fram betri afslætti. Á meðan bitnar þessi störukeppni á neytendum,“ segir hann.
Hann segir starfsfólk ekki vita hvernig málin standi og að þau séu í tómum vandræðum.
Flestar hillur sem venjulega geyma bæði sterkt- og léttvín voru hálftómar í þau skipti sem Óskar gekk í gegn, „Þetta er eins og sovésk verslun,“ segir hann.
Óskar er gamall kaupmaður og segir tómar hillur vera það seinasta sem maður lætur gerast í verslun. Hann segir eðlilegt að fólk verði fyrir vonbrigðum þegar það gengur í gegn og fái ekki það sem það vill kaupa.
Blaðamaður sendi fyrirspurn á framkvæmdastjóra Ísland Duty Free og spurði hann út í stöðu mála í dag.
„Málin hafa batnað umtalsvert frá fyrstu vikum okkar í rekstri en við erum enn að greiða úr tilfallandi vandræðum á vöru- og skipulagsmálum,“ segir í svari frá Frank Hansen, framkvæmdarstóra Ísland Duty Free.
Hann bætir við, „Þetta er lærdómsferli og við erum ákveðin í því að leysa úr þessum vanda. Við biðjumst velvirðingar á öllum óþægindum sem þetta kann að hafa valdið viðskiptavinum okkar og við þökkum þolinmæðina á meðan við vinnum að leið til þess að láta þetta ganga smurt fyrir síg,“ segir Frank.