Umdeildum þingfundi frestað

Bergþór Ólason í ræðustóli Alþingis í dag.
Bergþór Ólason í ræðustóli Alþingis í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Þingfundi var rétt í þessu frestað fram á morgun og hefst þá aftur klukkan 15.

Fundurinn sem hófst klukkan 13 í dag var nokkuð óvenjulegur af þeim sökum að um var að ræða annað skipti sem boðað er til þingfundar á sunnudegi í sögu lýðveldisins.

Þó að svokölluð bókun 35 hafi verið á dagskrá fundarins fór stærstur hluti hans í umræður um störf þingsins.

Brýtur gegn kristinni hefð

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru margir nokkuð ósáttir með ákvörðun forseta þingsins, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um að boða til fundar á sunnudegi. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði til að mynda um að ábyrgð hennar væri mikil á því fordæmi sem hún setti nú.

Þá vísaði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, í Konstantínus keisara sem „gaf út fyrirmæli árið 321 um að sunnudagurinn ætti að vera hvíldardagur“. Karl Gauti sagði ríkisstjórnina nú brjóta þá kristnu hefð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert