Brýr báru ekki slökkviliðsbíla í Selárdal

Ingólfur Árni Haraldsson varðstjóri og Úlfar Örn Hjartarsson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar …
Ingólfur Árni Haraldsson varðstjóri og Úlfar Örn Hjartarsson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar á Ströndum, á vettvangi í gær. Ljósmynd/Pétur Matthíasson

Aðstæður voru erfiðar til slökkvistarfs þegar slökkviliðsmenn börðust við gróðurelda í Selárdal í Steingrímsfirði á Vestfjörðum í gær. Vindasamt var á svæðinu og breiddist eldurinn hratt út.

Þá báru brýr ekki slökkviliðsbílana sem gerði það að verkum að töluverð vegalend var frá eldinum að bílunum, meðan á slökkvistarfi stóð.

Björgunaraðgerðir voru umfangsmiklar en um 27 manns komu að aðgerðunum, sem gengu vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna brunans en tekist hafði að ráða niðurlögum eldsins þegar hún kom. 

Slökkvistörf gengu líkt og í sögu.
Slökkvistörf gengu líkt og í sögu. Ljósmynd/Pétur Matthíasson

Einn bústaður nálægt eldsupptökum

Að sögn Ingólfs Árna Haraldssonar, varðstjóra slökkviliðs Dala, Reykhóla og Stranda, stóðu björgunaraðgerðir yfir í um tvær klukkustundir.

Eldurinn breiddist út yfir um tveggja hektara svæði, en einn bústaður var nálægt eldsupptökum. Ingólfur segir að brýnt hafi verið að tryggja að eldurinn næði ekki þangað, og tókst það.

„Þetta gekk eins og í sögu, við unnum eins og samheldin klukka,“ segir Ingólfur fullur þakklætis í garð allra sem komu að aðgerðunum. 

Eldsupptök eru enn ókunn, að sögn Ingólfs.

Viðbragðslið var á sexhjólum við slökkvistörf.
Viðbragðslið var á sexhjólum við slökkvistörf. Ljósmynd/Ingólfur Árni Haraldsson
Vindasamt var í Selárdal í gær.
Vindasamt var í Selárdal í gær. Ljósmynd/Ingólfur Árni Haraldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert