Fjórðungur lögreglumanna upplifir óöryggi

Niðurstöður úr könnun Ríkislögreglustjóra voru á meðal þeirra gagna sem …
Niðurstöður úr könnun Ríkislögreglustjóra voru á meðal þeirra gagna sem horft var til þegar lagt var til að hefja tilraunaverkefni um innleiðingu rafvarnavopna. mbl.is/Hari

Einn af hverjum fjórum lögreglumönnum upplifir óöryggi í starfi sínu. Hlutfall þeirra lögreglumanna sem upplifa að öryggistilfinning þeirra í starfi sé verri en árið á undan fer hækkandi, en það er um fimmtungur lögreglumanna.

Þetta kemur fram í könnun á vegum embættis Ríkislögreglustjóra sem framkvæmd er árlega. Niðurstöðurnar eru frá síðasta ári en könnunin verður lögð aftur fyrir lögreglumenn í haust. Þar er meðal annars spurt hversu örugga þeir upplifa sig í vinnu á venjulegum vinnudegi.

Að sögn Ólafs Arnar Bragasonar, sviðsstjóra hjá Ríkislögreglustjóra, hefur svarhlutfall lögreglumanna verið misjafnt milli ára en er yfirleitt í kringum 50–60%.

„Það er rúmlega einn fjórði lögreglumanna sem upplifa óöryggi í starfinu, en auðvitað er þarna verið að tala um alla lögreglumenn, og lögreglumenn vinna auðvitað við mismunandi aðstæður. Sumir eru úti á vettvangi en aðrir starfa við rannsóknir. En eins og dæmin hafa samt sýnt hafa þeir sem vinna að rannsóknum sakamála og ýmsum sérhæfðum störfum einnig verið útsettir fyrir ýmsum hótunum,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

„Og í raun og veru er þetta hlutfall lögreglumanna að hækka frá ári til árs sem upplifa að öryggistilfinning þeirra sé verri en árið á undan. Það fer hækkandi. Það er einn fimmti sem upplifir það.“

Sífellt verið að bæta stuðning

Ólafur segir að taka þurfi það alvarlega þegar 20% lögreglumanna upplifi meira óöryggi í starfi en þeir gerðu árið áður. Hann nefnir að niðurstöðurnar hafi verið meðal þeirra gagna sem horft var til þegar lagt var til að hefja tilraunaverkefni um innleiðingu rafvarnarvopna.

Þetta sé þó ekki eina aðgerðin sem ráðist hafi verið í. Hann segir að sífellt sé verið að bæta andlegan og félagslegan stuðning innan lögreglunnar, auk þess sem unnið sé markvisst að því að styðja sérstaklega við þá lögreglumenn sem upplifi óöryggi í starfi. Það sé gert með tvenns konar hætti: annars vegar með bættum búnaði og hins vegar með fjölgun lögreglumanna.

„Það er það sem ríkisstjórnin er núna að koma til móts við lögregluna með – þ.e. að fjölga um 50 menn í lögreglunni til að sjá til þess að nægilega margir séu á vettvangi, svo að hægt sé að tryggja öryggi,“ segir Ólafur og vísar þar til áforma dómsmálaráðherra.

Ólafur Örn Bragason, sviðsstjóri hjá Ríkislögreglustjóra.
Ólafur Örn Bragason, sviðsstjóri hjá Ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Aðsend

Auka við þjálfun

Hann segir mikilvægt að lögreglumenn hafi nægan tíma til að sinna verkefnum sínum af festu, þar sem öryggisleysi geti skapast þegar lögreglumenn þurfi að hlaupa úr einu verkefni í annað án þess að geta metið aðstæður nægilega vel.

„Svo höfum við líka verið að auka við þjálfun, af því að lögreglumenn eru að fara í mikið af krefjandi aðstæðum. Þá höfum við verið að auka þjálfun í spennulækkandi aðferðarfræði sem snýr að samskiptatækni sem lögreglumenn beita á vettvangi. Við höfum líka verið að vinna með eigin streitustjórnun,“ segir Ólafur og nefnir að notast sé við aðferðir sem miði að því að lækka púls lögreglumanna í krefjandi aðstæðum.

„Því hærra uppi sem þú ert, ef það má orða það þannig, því verri ákvarðanir tekurðu náttúrulega á vettvangi.

Þetta er allt hluti af skynjun lögreglumanna varðandi öryggistilfinningu. Ef þú ferð inn á vettvang og ert sjálfur hátt uppi upplifir þú þig óöruggan á vettvangi.“

Streitustjórnun er hluti af þjálfun lögreglumanna í dag.
Streitustjórnun er hluti af þjálfun lögreglumanna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökunaræfingar hluti af þjálfuninni

Ólafur segir að meðal þess sem farið sé yfir í þjálfuninni séu öndunaræfingar, sjálfstal og hugleiðsla. Lögreglumönnum sé kennt að sjá fyrir sér aðstæður og mismunandi lausnir. Það sé einstaklingsbundið hvaða aðferðir henti hverjum og einum.

„Það er t.d. verið að skoða hvaða öndunaræfingar henta hverjum og einum. Af því að minn taktur er kannski annar en þinn. Við tengjum fólk við púlsmæli og förum í gegnum ákveðnar slökunaræfingar. Fólk getur svo séð út frá púlsmælinum hvar það nær bestu slökuninni og síðan færum við það út í raunhæf verkefni þar sem það er með púlsmælinn á sér. Það fer í erfitt útkall og þarf að bregðast við, og þá reynum við að þjálfa fólk í að það geti farið í útköllin og haldið púlsinum góðum svo að það hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku.“

Að sögn Ólafs hefur lögreglan beitt þessari nálgun markvisst síðustu 7–8 ár. Þá hefur lögreglan átt í góðu samstarfi við háskólasamfélagið og unnið m.a. að rannsókn í samstarfi við Sigrúnu Þóru Sveinsdóttur, doktor í sálfræði. Einnig hafi verið innleiddar gagnreyndar aðferðir frá Háskólanum í Toronto í Kanada.

Mikið unnið í menningu innan lögreglunnar

Aðspurður segir Ólafur að mikið hafi verið unnið í menningu innan lögreglunnar síðustu 15 ár eða svo, þar sem markmiðið sé m.a. að það sé ekki bara samþykkt að lögreglumenn leiti sér aðstoðar, heldur að það sé í raun ákveðið „öryggistæki“ líka.

„Að þú sért ekki að mæta í vinnuna þegar þú ert ekki tilbúinn. Það þurfti mikla menningarbreytingu þar.“

Hann segir breytinguna einnig birtast í því að lögreglumenn kalli nú sjálfir eftir auknum stuðningi, sérstaklega í formi mönnunar, svo að hægt sé að tryggja öryggi og forðast að þeir lendi í aðstæðum sem þeir ráða ekki við.

Ólafur segir að það hafi verið ákveðin þörf á menningarbreytingu …
Ólafur segir að það hafi verið ákveðin þörf á menningarbreytingu innan lögreglustéttarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sækja innblástur til íþróttafræðinnar

Þá segir hann að mikið samstarf hafi verið með sérsveitinni, sem gegni mikilvægu hlutverki sem fyrirmynd fyrir almenna lögreglumenn. Sérsveitin hafi til dæmis sótt innblástur til íþróttafræðinnar og skoðað hvernig afreksfólk búi sig undir erfið verkefni.

„Við fengum nú á tímabili Hafrúnu Kristjánsdóttur [prófessor og deildarforseta íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík], sem kom inn með mikla fræðslu sem við höfum nýtt okkur úr íþróttafræðunum fyrir andlegan undirbúning.“

Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor og deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík, hefur …
Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor og deildarforseti íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík, hefur verið með fræðslu sem lögreglumenn hafa nýtt sér fyrir andlegan undirbúning krefjandi verkefna. mbl.is/Binni

„Hlaupa inn í aðstæður þar sem flestir hlaupa út“

Hann segir að þessi nálgun hafi hlotið góðan hljómgrunn meðal lögreglumanna.

„Það hefur svolítið tekið út þetta stigma, því áður fyrr var kannski meira verið að horfa í klíníska sálfræði þar sem það er eitthvað að þér, en það er meira núna horft á það að umhverfið sé með þessum hætti, og hvernig við getum þá sem best búið okkur undir þau verkefni sem lögreglunni eru falin,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Lögreglumenn hafa það hlutverk að hlaupa inn í aðstæður þar sem flestir hlaupa út, þannig að hlutverk okkar er bæði að reyna að búa lögreglumenn sem best undir það og styðja þá svo í úrvinnslunni.“

Að lokum nefnir Ólafur að það sé orðið mun viðurkenndara innan lögreglustéttarinnar í dag að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi – ekki endilega vegna vandamála heldur til að undirbúa sig og vera tilbúinn ef eitthvað kemur upp síðar.

„Þannig að ef eitthvað gerist síðar meir eru þeir komnir með sálfræðing sem þeir þekkja og treysta og geta þá farið til hans og unnið úr því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert