Fólkið sem fannst látið á Reykjavík Edition-hótelinu á laugardagsmorgun var búsett í Dyflinni á Írlandi þrátt fyrir að vera með franskt ríkisfang. Konan sem fer með stöðu sakbornings liggur enn á sjúkrahúsi með áverka, meðal annars stungusár.
Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í miðlægri deild lögreglu, í samtali við mbl.is.
„Við höfum aðeins skýrari mynd en í gær en rannsóknin er þannig séð enn þá á frumstigum. Henni miðar ágætlega en það er mikil vinna fyrir hendi,“ segir Ævar spurður út í stöðu rannsóknarinnar en að svo stöddu vill hann ekki tjá sig um hvað sakborningnum hafi gengið til eða hvort að verknaðurinn hafi verið skipulagður.
Eins og fram hefur komið fundust tveir franskir ferðamenn látnir á herbergi á Edition-hótelinu að morgni laugardags með stungusár og aðra áverka en um er að ræða eiginmann og dóttur sakborningsins sem einnig er franskur ferðamaður.
Starfsfólk hótelsins kallaði á aðstoð viðbragðsaðila en spurður hvort það hafi fundið fólkið látið segir Ævar:
„Það hefur komið fram að starfsfólk hótelsins hafi hringt á viðbragðsaðila þannig það má leiða að því líkum að þau hafi eitthvað komið þarna að en það er ekki eitthvað sem ég get tjáð mig um að svo stöddu.“
Þá vill hann ekki tjá sig um það hvort sakborningurinn hafi sjálfur sett sig í samband við starfsfólkið.
Spurður hvert ástand konunnar hafi verið þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang segir Ævar:
„Sakborningur var með alvarlega áverka, þar á meðal stunguáverka, og ástand var alvarlegt en ástandið núna er stöðugt.“
Þá vildi hann ekki tjá sig um andlegt ástand konunnar eða hvort hún hefði verið í uppnámi.
Spurður hvort bráðabirgðamat á sakhæfi hennar hafi farið fram segir Ævar:
„Nei, ekki að svo stöddu en í máli sem þessu er það eitthvað sem að mun örugglega verða gert.“
Vettvangsrannsókn stendur enn yfir og heldur mögulega áfram í einhverja daga en búið er að innsigla herbergið þar sem talið er að atburðurinn hafi átt sér stað.
Spurður hvort öll fjölskyldan hafi gist í umræddu herbergi segir Ævar: „Þau voru öll að gista á þessu hóteli.“
Þá segir hann aðspurður að rannsóknin miði að hluta að því að leiða í ljós hvort að fleiri hafi verið með fjölskyldunni á ferðalagi á Íslandi.
Ævar segir að lögreglan hafi þegar verið í sambandi við aðstandendur konunnar.
„Eins og hefur komið fram er um að ræða franska ríkisborgara og við settum okkur strax í samband við franska sendiráðið sem hafði upp á aðstandendum og franska lögreglan hefur líka sett sig í samband við okkur og með þeirra aðstoð tókst að hafa upp á aðstandendum sem við erum komin í samband við.“
Þá segir hann lögregluna hafa sent inn fyrirspurn til lögregluyfirvalda í Frakklandi um það hvort sakborningurinn hafi áður komist í kast við lögin en að svör við henni liggi ekki enn fyrir.
Lögreglan ræddi við konuna á laugardaginn en hefur ekki tekið frekari skýrslur af henni síðan. Sem fyrr segir dvelur hún nú á Landspítalanum.
Spurður hvort sú staðreynd, að konan sé ekki vistuð í fangelsi, flæki rannsókn málsins segir Ævar:
„Það er ákveðið flækjustig á því í ljósi þess að fólk sem er úrskurðað í gæsluvarðhald og á að sæta einangrun þá er heppilegasti staðurinn náttúrulega fangelsi og þar til gert húsnæði, svo að það flækir málin aðeins að hún þurfi að dvelja á sjúkrahúsi.“
Eins og mbl.is fjallaði um í gær hafa franskir fjölmiðlar sýnt málinu athygli en Ævar segir að lögreglunni hafi borist fyrirspurnir frá þeim.
„Ég held að það sé bara verið að spyrja almennt um málið og ég geri alveg ráð fyrir að við fáum frekari fyrirspurnir frá þeim næstu daga og jafnvel írskum fjölmiðlum líka þar sem þau voru búsett í Dublin.“