Komu lítið á óvart

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á morgun eru 25 ár liðin frá því að skjálfti reið yfir Suðurland. Stærð og umfang skjálftans komu jarðvísindamönnum lítið á óvart en lengi var búið að spá fyrir um skjálfta á svæðinu á þessum tíma í ljósi sögulegra atburða.

Blaðamaður náði tali af Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Sjálfur var hann staddur í Austur-­Skaftafellssýslu þegar fyrsti skjálftinn varð og heyrði hann af honum í útvarpinu.

Fyrsti skjálftinn reið yfir kl. 15.40 á þjóðhátíðardaginn 17. júní og mældist 6,5 á Richter. Magnús kvaðst ekki hafa verið hissa þegar hann heyrði af skjálftanum enda hafði á þessum tíma verið reiknað með að stórir skjálftar gætu orðið vegna þess hve langt var liðið frá skjálftahrinunni í lok 19. aldar. Aðfaranótt 21. júní mældist annar skjálfti á svæðinu, 6,6 að stærð.

Ekkert manntjón varð af skjálft­unum en nokkurt eignatjón varð. ­Fjallað var um skjálftann í sérstöku blaði Morgunblaðsins sem kom út 20. júní árið 2000 þar sem segir að um 60 til 70 manns hafi orðið heimilislausir í kjölfar skjálftans.

Magnús segir að seint á sjöunda áratug síðustu aldar hafi verið settar strangari reglugerðir um hvernig skyldi byggja hús á Íslandi í ljósi náttúruváar sem gæti orðið. Því hafi almennt verið fylgt og húsin þolað skjálftana almennt nokkuð vel.

„Reynslan af þessum skjálftum var sú að þær byggingarreglugerðir sem hafði verið fylgt undanfarna áratugi stóðust prófið að mestu leyti. Ef hús eru ekki byggð yfir sprungur þola þau mikið,“ segir Magnús. Hann segir að á næstu áratugum geti orðið einhverjir stórir skjálftar á Suðurlandi. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert