Kópavogsbúar beðnir um að skoða í geymslur og skúra

Lögreglan óskar eftir upptökum úr öryggis- og eftirlitsmyndavélum.
Lögreglan óskar eftir upptökum úr öryggis- og eftirlitsmyndavélum. Samsett mynd

Leit að Sigríði Jóhannsdóttur, 56 ára, hefur enn engan árangur borið, en síðast er vitað um ferðir hennar á Digranesheiði í Kópavogi síðdegis föstudaginn 13. júní.

Lögreglan biður þau sem eru með öryggis- og eftirlitsmyndavélar á því svæði og í næsta nágrenni að hafa samband svo hún geti kannað hvort þar kunni að sjást til ferða Sigríðar eftir fyrrnefndan tíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá eru íbúar í hverfinu og í Kópavogi beðnir um að skoða nærumhverfi sitt s.s. geymslur, stigaganga og garðskúra. Þau sem eru í forsvari fyrir auðu húsnæði í hverfinu og í Kópavogi beðin um að skoða slíka staði.

Lögreglan biður einnig þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Sigríðar að hafa samband við lögregluna í síma 112 eða 444 1000 eða með tölvupósti á netfangið 100@lrh.is

 Uppfært kl. 16:51

Björgunarsveitamenn munu síðdegis í dag ganga í hús á ákveðnum radíus í kringum heimili Sigríðar á Digranesheiði og dreifa miða þess efnis að fólk sem hafi eftirlitsmyndavélar sé hvatt til að fara yfir upptökur frá föstudagseftirmiðdegi til laugardagsmorguns. 

Á miðanum er það einnig ítrekað að fólk skoði nærumhverfi sitt og láti Lögreglu vita hafi það ábendingar um málið.

Fulltrúi slysavarnafélagsins Landsbjargar greindi frá þessu í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert