Áformað er að byggja 448 til 550 íbúðir í Norður-Mjódd samkvæmt kynningu sem þróunarfélagið Klasi kynnti fyrir Reykjavíkurborg í apríl. Horft er til þess að húsin á reitnum verði 3-7 hæða, en flestar byggingar verða 5 hæða. Til greina kemur að á hluta reitarins verði lífsgæðakjarni, hjúkrunarheimili eða íbúðir fyrir 60 ára og eldri.
Reiturinn nær frá strætóstöðinni í Mjódd að Aktu taktu, en á þessum reit var meðal annars áður verslun Garðheima og ÁTVR og er núna bensínstöð Olís. Nánar tiltekið eru lóðirnar sem um ræðir Stekkjarbakki 4-6 og Álfabakki 7, en vestan megin við reitinn liggur Reykjanesbraut.
Til viðbótar kæmi verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð á hluta reitarins sem og önnur atvinnustarfsemi á efri hæðum á hluta. Heimild er fyrir matvörubúð, leikskóla, hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir á reitnum.
Í bókun meirihlutans í umhverfis- og skipulagsráði, þegar málið var tekið fyrir, var tekið fram að uppbyggingin, „með fjölbreytilegu sniði húsa og stórum inngarði verður til mikilla bóta og eftirsótt til íbúðar.“
Verkefnið er hins vegar enn í mótun og leggur meirihlutinn sérstaka áherslu á að mikilvægt sé að huga að skólamálum og að æskilegt væri að uppbygging leikskóla væri hluti af verkefninu. Þá ætti uppbygging svæðisins að vera hluti af heildarskipulagi Mjóddarinnar.
Fulltrúar minnihlutans gera hins vegar athugasemdir við hæð fyrirhugaðra bygginga. Þannig segja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að brýnt sé að varðveita sérkenni Neðra-Breiðholts í stað þess að byggja háreista byggð í Mjódd „sem yrði í algerri andstöðu við skipulag hverfisins. Við skipulag þarf því að gæta þess að hin nýja byggð valdi sem minnstu skuggavarpi í Bakka- og Stekkjahverfi.“
Bókaði áheyrnarfulltrúi Viðreisnar að þótt húsin hafi verið lækkuð í tillögunum þá séu 5 hæða hús í nágrenni við núverandi byggð „að vekja töluverðan ótta um væntanlegt skuggavarp.“ Jafnframt að huga þurfi að því hvernig þjónusta í hverfinu geti borið þessa viðbót og er þá sérstaklega vísað til grunn- og leikskóla. Telur fulltrúi Viðreisnar hæpið að hverfið ráði við þessa viðbót án þess að innviðir séu styrktir.
Morgunblaðið fjallaði um fyrirhugaða uppbyggingu í byrjun þessa árs, en þar var einnig horft á önnur uppbyggingarmál í kringum Mjóddina. Þá var gert ráð fyrir 450 íbúðum á reitnum en miðað við kynninguna hjá umhverfis- og skipulagsráði er nú gert ráð fyrir að fjöldi íbúðanna verði allt að 100 fleiri.
Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir í samtali við mbl.is að staðan sé óbreytt eftir kynningarfundinn í apríl. Segir hann að þróunarfélagið sé áfram í samskiptum við borgaryfirvöld en að beðið sé eftir að sjá hvernig ákveðnir hlutir þróist og afstöðu borgarinnar í nokkrum málum.
Þannig sé málið enn í vinnslu með borginni og að reynt sé að vinna út frá stefnu borgarinnar þegar komi að uppbyggingu og samgöngum. Þá sé enn í gangi samtal um heildarskipulag og áherslur svæðisins.
„Þetta gæti orðið einhvers konar lífsgæðakjarni eða heilbrigðisþjónusta eða íbúðir fyrir 60 ára og eldri,“ segir Ingvi og tekur fram að hugmyndir hafi komið fram um hjúkrunarheimili þarna. „Þá væri þetta ekki eins þungt fyrir skólana,“ bætir hann við og vísar í athugasemdir borgarinnar.
Ingvi segir að vel gæti komið til greina að stór hluti svæðisins yrði nýttur undir þjónustu af þessu tagi. Bendir hann á að stutt sé í flestalla almenna þjónustu, með Mjóddina í næsta nágrenni. „Okkur finnst það spennandi kostur, enda mikið talað um slíkt og staðsetningin er frábær fyrir slíkan uppbyggingarkost.“
Stærð skipulagssvæðisins er 26.755 fermetrar en samtals er áætlað að byggingarmagn ofanjarðar verði 55.600 fermetrar. Það þýðir að nýtingarhlutfall verður 2,1.
Í kynningunni er svæðinu skipt upp í þrjá reiti. Fyrsti reiturinn, svokallaður A-reitur, er sá sem næstur er strætóstöðinni í Mjódd og þar sem Olís er nú með bensínstöð. Samkvæmt kynningunni er þar gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum en atvinnuhúsnæði og íbúðum á efri hæðum.
Á miðjureitnum, svokölluðum B-reit sem er að mestu gamli Garðheimareiturinn, er gert ráð fyrir íbúðum en þar verður einnig stór inngarður. Í kynningunni er hann sagður vera „segull og hjarta samfélagsins“. Ingvi segir að þar sé einnig gert ráð fyrir einhverri þjónustu og mögulega leikskóla, eins og meirihlutinn hafði vísað til. Að mestu verði þessi reitur þó íbúðir.
Á þriðja reitnum, sem er lengst til norðurs og næst Aktu taktu í dag og kallast C-reitur, verða einungis íbúðir samkvæmt áformunum. Þar er einnig gert ráð fyrir skjólgóðum inngarði. Ingvi segir að ef af því verði að koma upp hjúkrunarheimili eða sambærilegri þjónustu yrði það líklegast á A-reitnum.
Eins og bókanir minnihlutans gefa til kynna hafa íbúar í Neðra-Breiðholti ekki allir verið sáttir með þessi uppbyggingaráform og hefur verið horft til stærðar húsanna.
Ingvi segir að Klasi telji skipulagið ekki í andstöðu við heildarskipulag svæðisins og að horft sé til þess að byggðin í Norður-Mjódd lækki sig að núverandi byggð til austurs. Þannig verði hæstu byggingarnar í Norður-Mjódd næst Reykjanesbrautinni í vestur, en lækki til austurs.
Segir Ingvi að búið sé að fara vel í gegnum þetta og að engin áhrif eigi að verða á íbúa í nágrenninu varðandi skuggavarp. Skoðanir fólks almennt á hæð húsa séu svo matsatriði hvers og eins, en hugmyndafræðin sé að þessi nýja byggð eigi ekki að hafa áhrif á nálæga byggð.
Hljóðvist er annað sem þarf að huga að þegar byggt er nálægt stofnæðum eins og Reykjanesbrautinni. Ingvi segir að rétt sé að mikil umferð sé þar, en hafa verði í huga að ein gata, Álfabakkinn, sé þarna á milli og þá verði unnið með sérstaka hljóðeinangrun til að bæta hljóðvist.
Einnig séu kröfur um allavega eina kyrrláta hlið í allri svona hönnun. Það þýðir að fyrir íbúðir þar sem hávaði mælist yfir leyfilegum mörkum, mögulega þær sem snúa til vesturs á reitnum, þá þurfi ein hlið hverrar íbúðar að snúa í átt að kyrrlátara svæði, eins og inngörðunum.
Undir hluta húsanna verða bílastæðakjallarar, annaðhvort á einni eða tveimur hæðum. Spurður út í bílastæðafjölda á hverja íbúð segir Ingvi að slíkt sé ekki enn frágengið, en að gert sé ráð fyrir samnýtanlegu rými með þjónustu og að farið verði eftir samgöngustefnu borgarinnar. Eitt þeirra atriða sem fram undan séu í skipulagsvinnunni sé að fara yfir bílastæðamálin.
En hvenær má eiga von á að farið verði í framkvæmdir? Ingvi segir að það sé enn alveg óljóst, enda sé vinna við skipulag enn í gangi. Félagið þurfi að fá svör frá borginni um næstu skref áður en farið sé í auglýsingaferli og frekari hönnun. „Þegar tillaga liggur fyrir gæti það tekið 4-6 mánuði að ljúka skipulagsferli, en við erum ekki alveg komin þangað,“ segir Ingvi.
Hann segir að Klasi hafi unnið út frá þeirri aðalforsendu að hafa íbúðir á reitnum því slíkt vanti í dag, en til viðbótar að hafa verslun og þjónustu. Segir hann að þessi uppbygging eigi að geta styrkt bæði Mjóddina og nágrennið. Meðal annars verði til íbúðir sem íbúar í nærliggjandi sérbýlum geti horft til á efri árum og þannig búið til pláss á sérbýlamarkaðinum fyrir þá sem eru að horfa til þess að stækka við sig. Fjölgun íbúa ýti jafnframt undir þjónustu og verslun á svæðinu.
Hægt er að kynna sér tillögurnar nánar hér, en þar má meðal annars sjá skuggavarps- og dagsbirtugreiningar sem og hljóðvistargreingu. Þá má sjá kynningu Klasa fyrir umhverfis- og skipulagsráð hér.