400 manns sem starfa við gerð kvikmyndar leikstjórans Christophers Nolans fá skjól í Hvolsskóla á næstu dögum eftir að tjaldbúðir sem átti að notast við fuku og eyðilögðust í Vík í Mýrdal.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitafélaginu Rangárþingi eystra í dag. Þar kemur fram að starfsmennirnir séu á vegum kvikmyndafyrirtækisins TrueNorth.
Sveitarfélagið segir að leiga skólans komi til með mjög stuttum fyrirvara þar sem tjaldbúðirnar hafi fokið og eyðilagst í Vík í vikunni.
Í tilkynningunni segir ekki hvaða kvikmynd sé verið að taka upp en að töluverð leynd liggi yfir því. Það fylgi þó sögunni að um sé að ræða kvikmynd í leikstjórn eins vinsælasta leikstjórans um þessar mundir.
Samkvæmt heimildum mbl.is er hér um kvikmyndaverkefni Christophers Nolan að ræða. Það er myndin Ódysseifskviða en nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood munu fara með aðalhlutverk í þeirri mynd. Þar á meðal er Matt Damon, Tom Holland, Robert Pattinson, Zendaya og Anne Hathaway.
Sveitarfélagið býður framleiðsluteymið velkomið.